Bayern hefur gert tilboð í Díaz - Liverpool vill Ekitike
   fös 11. júlí 2025 21:41
Ívan Guðjón Baldursson
Lengjudeildin: Fyrsta tap ÍR kom á heimavelli
Selfoss vann í fallbaráttuslag
Lengjudeildin
Dagur Orri skoraði bæði mörk HK.
Dagur Orri skoraði bæði mörk HK.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hulda Margrét
Mynd: Hrefna Morthens
Mynd: Hrefna Morthens
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Þremur síðustu leikjum kvöldsins er lokið í Lengjudeild karla þar sem afar áhugaverð úrslit litu dagsins ljós, en topplið ÍR tapaði sínum fyrsta deildarleik á tímabilinu á heimavelli gegn HK.

ÍR 1 - 2 HK
0-1 Dagur Orri Garðarsson ('38)
0-2 Dagur Orri Garðarsson ('76)
1-2 Guðjón Máni Magnússon ('89)

Lestu um leikinn: ÍR 1 - 2 HK

Leikurinn fór skemmtilega af stað þar sem bæði lið fengu marktækifæri áður en Dagur Orri Garðarsson braut ísinn fyrir gestina úr Kópavogi. Hann slapp í gegn og skoraði mikið dugnaðarmark eftir harða baráttu við varnarmann ÍR.

ÍR-ingar kvörtuðu undan dómgæslu þegar tók að líða á hálfleikinn og var staðan 0-1 eftir nokkuð jafnar 45 mínútur. HK fékk gott marktækifæri í upphafi síðari hálfleiks en eftir það róaðist leikurinn mikið niður þar sem HK varðist vel.

Þegar komið var inn á lokakaflann áttu heimamenn skot í stöng en gestirnir svöruðu skömmu síðar með marki. Aftur var Dagur Orri á ferðinni og skoraði hann aftur eftir að hafa sloppið innfyrir varnarlínu Breiðhyltinga. Hann tvöfaldaði þannig forystuna og neyddi ÍR-inga til að leggja allt púður í sóknarleikinn, sem þeir gerðu.

ÍR bankaði á dyrnar og tókst að minnka muninn eftir langt innkast á 89. mínútu. Boltinn datt fyrir Guðjón Mána Magnússon sem gerði vel að skora. Guðjón Máni var svo næstum búinn að jafna leikinn þegar skalli hann eftir hornspyrnu fór rétt framhjá.

HK gerði vel að halda forystunni til leiksloka og tryggja sér dýrmætan sigur í toppbaráttunni. ÍR er á toppi Lengjudeildarinnar með 25 stig sem stendur, einu stigi meira heldur en HK sem situr í öðru sæti. Njarðvík er í þriðja sæti en getur tekið toppsætið með sigri á Húsavík á morgun.



Selfoss 3 - 1 Fylkir
1-0 Aron Lucas Vokes ('18)
2-0 Aron Fannar Birgisson ('21)
3-0 Frosti Brynjólfsson ('33)
3-1 Guðmundur Tyrfingsson ('73)

Lestu um leikinn: Selfoss 3 - 1 Fylkir

Á Selfossi var mikilvægur fallbaráttuslagur þegar Fylkir kíkti í heimsókn. Jón Daði Böðvarsson er nýbúinn að skrifa undir við uppeldisfélag sitt Selfoss en ekki gjaldgengur með liðinu fyrr en félagaskiptaglugginn opnar 17. júlí.

Hann horfði þó á þegar tilvonandi samherjar sínir mættu til leiks í dag og komust í þriggja marka forystu í fyrri hálfleik gegn Fylki. Aron Lucas Vokes tók forystuna á átjándu mínútu eftir slæma sendingu úr vörn Fylkis, en það var Jón Vignir Pétursson sem vann boltann og bjó til markið.

Skömmu síðar átti Jón Vignir aðra stoðsendingu. Hann stakk boltanum innfyrir vörn Fylkis þar sem Aron Fannar Birgisson mætti á hörkuspretti og kláraði fagmannlega.

Hvert einasta færi Selfyssinga í fyrri hálfleik virtist ætla að enda með marki þegar Frosti Brynjólfsson bætti þriðja markinu við á 33. mínútu. Hann gerði mjög vel að skora eftir langa sendingu upp völlinn.

Fylkir gerði tvöfalda skiptingu eftir þriðja markið og breytti um leikkerfi. Árbæingar fengu tvö góð færi strax í kjölfarið en tókst ekki að minnka muninn fyrir leikhlé, svo staðan var 3-0.

Selfoss varðist vel í síðari hálfleik og gerði vel að drepa hraðann í leiknum niður. Fylkismenn áttu í erfiðleikum með að skapa sér færi en Selfyssingurinn uppaldi Guðmundur Tyrfingsson náði þó að setja boltann í netið þegar komið var inn á lokakafla leiksins.

Gummi Tyrfings skallaði fyrirgjöf í netið en nær komust Fylkismenn ekki. Robert Blakala átti góðar vörslur en Selfyssingar fengu einnig færi úr sínum skyndisóknum.

Bæði lið eiga 10 stig eftir 12 fyrstu umferðirnar á deildartímabilinu. Þau eru einu stigi fyrir ofan fallsvæðið sem stendur.



Þróttur R. 3 - 2 Keflavík
1-0 Aron Snær Ingason ('32)
1-1 Marin Mudrazija ('35)
2-1 Eiríkur Þorsteinsson Blöndal ('58)
3-1 Kári Kristjánsson ('86)
3-2 Eiður Orri Ragnarsson ('88)
Rautt spjald: Sindri Kristinn Ólafsson, Keflavík ('94)

Lestu um leikinn: Þróttur R. 3 - 2 Keflavík

Að lokum áttust Þróttur R. og Keflavík við í efri hluta deildarinnar þar sem liðin stefna bæði á að fara upp um deild í haust. Það var mikið fjör á upphafsmínútunum þar sem bæði lið fengu góð færi til að skora áður en Þróttur tók forystuna.

Boltinn rataði loks í netið á 32. mínútu þegar Aron Snær Ingason fylgdi skoti frá Liam Daða Jeffs eftir með marki. Forysta heimamanna lifði þó ekki lengi því Marin Mudrazija jafnaði aðeins þremur mínútum síðar, þegar hann fylgdi stangarskalla eftir með marki af stuttu færi.

Staðan var jöfn eftir fjörugan og jafnan fyrri hálfleik og byrjuðu Keflvíkingar betur í þeim síðari en tókst ekki að skora. Þess í stað tóku heimamenn forystuna á ný þegar Eiríkur Þorsteinsson Blöndal skoraði eftir stórskemmtilega sókn. Þar sýndu Liam Daði og Aron Ingi gæðin sín með skemmtilegum tilþrifum, en Eiríkur skoraði markið með föstu skoti utan vítateigs sem breytti um stefnu af varnarmanni og lak í netið.

Leikurinn var áfram opinn og fjörugur en Kári Kristjánsson virtist ganga frá þessu með marki á 86. mínútu fyrir heimamenn. Kári fylgdi tveimur marktilraunum Þróttara eftir með bylmingsskoti utan teigs sem rataði í netið.

Keflvíkingar voru alls ekki hættir því Eiður Orri Ragnarsson minnkaði muninn strax aftur niður í eitt mark. Keflvíkingar skoruðu úr sinni fyrstu sókn eftir að hafa tekið miðjuna, þar sem Axel Ingi Jóhannesson skallaði boltann niður fyrir Eið Orra sem skoraði með föstu skoti rétt utan vítateigs.

Staðan var þá orðin 3-2 og lagði Keflavík allt púður í sóknarleikinn. Þróttarar komust í skyndisókn og fékk Sindri Kristinn Ólafsson markvörður að líta beint rautt spjald fyrir að stöðva hana með broti sem aftasti varnarmaður. Keflvíkingum tókst því ekki að jafna og afar dýrmætur sigur Þróttara staðreynd.

Þróttur er í fjórða sæti Lengjudeildarinnar eftir þennan sigur, þremur stigum fyrir ofan Keflavík.
Athugasemdir
banner
banner