
Ingi Rafn Ingibergsson, aðstoðarþjálfari Selfoss, var til viðtals eftir 3-1 sigur liðsins gegn Fylki í Lengjudeildinni í kvöld.
Lestu um leikinn: Selfoss 3 - 1 Fylkir
"Þetta var góður sigur. Liðsframmistaðan í fyrri hálfleik var mjög góð. Þessi góði fyrri hálfleikur skóp þennan sigur í kvöld," segir Ingi og kveðst sammála því að fyrri hálfleikurinn hafi verið sá besti hjá liðinu í sumar.
"Ég er sammála því. Við erum búnir að eiga góða leiki inni á milli en vorum að tengja vel sendingar í dag og komum okkur í góð færi sem við nýttum."
Selfyssingar hafa verið óheppnir fyrir framan markið í sumar en nú skorað tvö mörk eða fleiri í seinustu þremur leikjum. Er stíflan brostin? "Í þessum leik að minnsta kosti. Eins og Fótbolti.net fór yfir í tölfræði um daginn þá lítur þetta ágætlega út hjá okkur. Stundum dettur þetta ekki með manni. Við erum líka að fá á okkur of mörg mörk og náum ekki að halda hreinu. Það er líka eitthvað sem við þurfum að vinna með."
Ungur Selfyssingur, Reynir Freyr Sveinsson, lék í hjarta varnarinnar hjá liðinu og var að öðrum ólöstuðum besti maður vallarins. "Já. Reynir er geggjaður karakter og Selfyssingur út í gegn. Verst er þegar hann fagnar svo mikið að hann fær krampa. En hann gefur okkur margt. Þetta snýst ekki bara um flotta spilið, það þarf líka að fara á baráttu og hann er með geggjaðan karakter."
Og úrslitin þýða að Selfyssingar lyfta sér upp úr fallsæti. "Það er jákvætt og við byggjum á þessu. Við erum líka að fá leikmann inn í næsta leik svo það er bara bjart framundan vonandi."
Allt viðtalið við Inga Rafn má sjá í spilaranum hér að ofan.