
„Það er alveg fiðringur, búinn að bíða lengi eftir þessum leik," segir Davíð Smári Lamude, þjálfari Vestra, við Fótbolta.net. Framundan hjá Vestra er undanúrslitaleikur í Mjólkurbikarnum á móti Fram. Sá leikur fer fram á Kerecis vellinum á Ísafirði á morgun, hefst klukkan 14:00.
„Mér líst hrikalega vel á þetta, ofboðslega spenntur. Leikurinn er búinn að vera einhvern veginn í hausnum á leikmönnum of lengi, mikil spenna."
„Mér líst hrikalega vel á þetta, ofboðslega spenntur. Leikurinn er búinn að vera einhvern veginn í hausnum á leikmönnum of lengi, mikil spenna."
Mikil spenna og eftirvænting
Heldur þú að leikmenn hafi verið með þennan leik á bakvið eyrað í langan tíma og einbeitingin aðeins farið af deildinni?
„Það er auðvelt að ætla sér að fela sig á bakvið það, og mann langar ekki að viðurkenna það, en ég held að það sé bara í eðli mannsins, þetta er eitthvað til að hlakka til, stór leikur á móti gríðarlega sigursælu liði sem hefur unnið bikarinn átta sinum. Rúnar hefur unnið þetta fjórum sinnum held ég; þrisvar sem þjálfari og einu sinni sem leikmaður. Það er mikil spenna fyrir þessu og mikil eftirvænting."
Þurfa að spila jafnvel betur en gegn Íslandsmeisturunum
„Ég er hrikalega ánægður að vera kominn á þennan stað, við höfum mætt mjög erfiðum andstæðingum, Íslandsmeisturunum á þeirra heimavelli og mjög erfiðum andstæðingum í HK og Þór. Þetta hafa verið mjög ólíkir leikir, en flestir leikirnir hafa verið nokkuð vel spilaðir af okkar hálfu. Við náðum ákveðnum toppi í Blikaleiknum og við þurfum að fara jafnvel fram úr þeirri spilamennsku til að klára þetta á morgun."
„Vuk verið á eldi"
Hvernig líst Davíð á Fram, hvað þarf að stoppa?
„Þeir eru taplausir í síðustu fjórum deildarleikjum og fengu bara á mark á sig á móti Blikum. Þeir eru ofboðslega þéttir varnarlega, vel skipulagðir, eru með ofboðslega mikið af einstaklingsgæðum. Vuk hefur verið á eldi og hann er eitthvað sem við þurfum að eiga við, og auðvitað Fred líka. Þeir eru með gæði alls staðar, gríðarlega sterkt lið og vel mannað."
Davíð býst við mikilli stöðubaráttu á morgun. „Þetta er bikarleikur og í flestum tilfellum verða þetta kraftmiklir leikir. Við erum komnir í undanúrslit, það verður allt lagt undir og spilað til sigurs. Það verður góð kemestría í kringum leikinn."
Þurfa að bæta sinn leik og engar afsakanir
Leggur þú þetta öðruvísi upp en hvern annan deildarleik?
„Stærð leiksins hefur auðvitað áhrif, ég ætla ekki að tala um hvort við ætlum að breyta miklu. En við þurfum auðvitað að bæta okkar leik, það hefur aðeins dalað í okkur og við þurfum klárlega að bæta okkar leik og mæta einbeittari. Það hefur aðeins verið um einstaklingsmistök og menn kannski misst pínu kúlið. Nú er eftir engu að biða, nú þurfum við bara að leggja allt í þetta, höfum engar afsakanir fyrir neinu öðru en að spila af okkar bestu getu á morgun."
Þeir Anton Kralj og Arnór Borg Guðjohnsen byrja líklega ekki á morgun en gætu komið inn sem varamenn. Annars eru flestir klárir hjá Vestra, þar með talinn er lykilmaðurinn Daði Berg Jónsson. „Við stillum upp sterku liði á morgun."
Þurfa hjálp úr stúkunni
Hvernig skynjar Davíð stemninguna í kringum leikinn?
„Ég ætla rétt að vona að við náum að fylla stúkuna, er mjög vongóður um það. Við getum þetta klárlega ekki bara með ellefu inn á vellinum, við þurfum að fá alla stúkuna með okkur. Við þurfum að láta heyra í okkur allan tímann."
„Við gerum okkur grein fyrir því að við erum að spila á móti stóru bikarliði, við erum litla liðið í þessu ef horft er í söguna, en við ætlum að sækja til sigurs."
Ætla að skilja eftir fótspor
Hefur Davíð talað um það við leikmennina að það sé tækifæri til að skrifa söguna með því að komast í úrslit?
„Við ætlum okkur að skilja eitthvað fótspor eftir okkur, þetta lið ætlar að láta muna eftir sér. Það er ofboðslega sterk og góð kemestría í þessu liði og mér finnst hún verðskulda það að við klárum þetta tímabil allt til enda. Í þessum leik á morgun er kjörið tækifæri, það er miði í boði og við þurfum að sækja hann," segir þjálfarinn að lokum.
Athugasemdir