Bayern hefur gert tilboð í Díaz - Liverpool vill Ekitike
banner
   fös 11. júlí 2025 23:30
Ívan Guðjón Baldursson
Fenerbahce leiðir kappið um Asensio
Mynd: Aston Villa
Sóknartengiliðurinn Marco Asensio er aðeins með eitt ár eftir af samningi sínum við stórveldi Paris Saint-Germain og er ekki í áformum Luis Enrique þjálfara.

Asensio lék á láni hjá Aston Villa á seinni hluta leiktíðar og hefur verið eftirsóttur af félögum á borð við Villarreal og Inter í sumar, þar sem PSG er reiðubúið til að selja hann fyrir svo lítið sem 15 milljónir evra.

ESPN greinir frá því að þrátt fyrir áhuga ýmissa félaga sé það tyrkneska stórveldið Fenerbahce sem leiðir kapphlaupið. José Mourinho er áhugasamur um að fá Asensio til liðs við sig og virðist Fenerbahce vera reiðubúið til að kaupa Spánverjann.

Asensio er 29 ára gamall og hefur verið hjá PSG í tvö ár eftir níu ára dvöl hjá Real Madrid. Hann kom að 9 mörkum í 21 leik með Aston Villa á seinni hluta síðustu leiktíðar.

Þó að Asensio hafi ekki spilað fyrir spænska landsliðið síðastliðin tvö ár þá er hann með 38 landsleiki að baki í heildina og var í hópnum sem vann Þjóðadeildina 2023.
Athugasemdir