Varane, Diaz, Matip, Yamal, Davies og Rashford koma við sögu
banner
   fös 15. mars 2024 17:16
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Ekki valinn þar sem hann er ekki að spila - „Versta símtal sem þú tekur"
Icelandair
Rúnar Alex er varamaður fyrir Kamil Grabara hjá FCK.
Rúnar Alex er varamaður fyrir Kamil Grabara hjá FCK.
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Varði síðast mark Íslands í október á síðasta ári.
Varði síðast mark Íslands í október á síðasta ári.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Rúnar Alex Rúnarsson, leikmaður FCK, er ekki í íslenska landsliðshópnum sem tilkynntur var í dag. Rúnar hefur verið í öllum keppnisverkefnum í fjögur ár, byrjaði sjö af tíu leikjum Íslands í síðustu undankeppni og því kemur á óvart að hann sé ekki í hópnum.

Landsliðsþjálfarinn Age Hareide var á fréttamannafundi í dag spurður hvers vegna Rúnar var ekki valinn í hópinn.

„Ástæðan er sú að hann er ekki að spila, vantar að spila leiki. Það er hægt að skoða hversu marga leiki hann hefur spilað síðan hann fór frá Cardiff. Hann spilaði heldur ekki þegar hann var hjá Cardiff. Ég ræddi við Rúnar og sagði honum að hann þyrfti að spila. Vonandi getur hann orðið aðalmarkvörður FCK þegar Grabara fer til Þýskalands. Hann er góður markvörður," sagði Hareide.

„Við erum heppnir að vera með allavega fjóra góða markverði. [Patrik Sigurður] Gunnarsson gerði vel á æfingum og í þær 45 mínútur sem hann spilaði í Bandaríkjunum. Hann hefur verið í hópnum áður, hann er reyndur og ég treysti honum. Elías [Rafn Ólafsson] og Hákon [Rafn Valdimasson] hafa verið í hópnum áður."

Hver voru viðbrögð Rúnars Alex þegar hann fékk tíðindin?

„Auðvitað varð hann fyrir vonbrigðum. Þetta er versta símtal sem þú tekur, að segja við leikmann að hann verði ekki valinn. Ég vil gera það, sérstaklega ef leikmenn hafa verið í hópnum í talsverðan tíma. Ég geri það ekki oft ef það eru leikmenn sem eru inn og út úr hópnum. Rúnar hefur verið í hópnum og átti skilið að fá að vita það áður en þið fenguð að vita það og átti skilið að ég ræddi það við hann. Ég verð að vera hreinskilinn við leikmenn eins og þegar ég sagði við Gylfa að hann yrði ekki í hópnum af því að hann þyrfti að vera spila fótbolta. Mér finnst það ekki skemmtilegt, en maður þarf að gera það. Stundum sem þjálfari þarftu að gera erfiða hluti líka. Það er alltaf erfitt og leiðinlegt að gera fólk leitt. Þú vilt gera fólk glatt," sagði Hareide.

Rúnar Alex er fæddur árið 1995 og skipti í janúar frá Arsenal til FCK í Danmörku eftir að hafa verið á láni hjá Cardiff fyrri hluta tímabilsins. Hann á að baki 27 landsleiki.

Íslenska landsliðið mætir Ísrael í Búdapest í undanúrslitum umspilsins um sæti í lokakeppni EM 2024 þann 21. mars, fimmtudagskvöldið í næstu viku.

Sigurvegarinn í þeim leik mætir annað hvort Bosníu-Hersegóvínu eða Úkraínu 26. mars í hreinum úrslitaleik um sæti í lokakeppni EM í Þýskalandi.

Athugasemdir
banner
banner