Varane, Diaz, Matip, Yamal, Davies og Rashford koma við sögu
   lau 16. mars 2024 09:00
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Gísli missir af byrjun Allsvenskan - „Algjör óheppni"
Aldrei brotið bein áður, mikil óheppni.
Aldrei brotið bein áður, mikil óheppni.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Gísli Eyjólfsson, leikmaður Halmstad í Svíþjóð, varð fyrir því óláni á dögunum að brjóta bein í handabakinu. Óheppninni var ekki lokið þar því fyrr í þessari viku tábrotnaði hann svo. Það er ljóst að Gísli verður frá næstu vikurnar. Hann mun missa af upphafi sænsku deildarinnar vegna meiðslanna en vonast til að geta byrjað að hlaupa aftur eftir fjórar vikur.

„Ég braut bein í handabakinu fyrir rúmlega viku síðan og svo núna fyrr í þessari viku braut ég bein í stóru tánni. Skil ekki hvað er í gangi," sagði Gísli við Fótbolta.net en hann hafði fyrir þetta aldrei brotið bein áður.

„Beinið í hendinni brotnaði snemma í æfingaleik og ég kláraði leikinn. Mér var bara illt í hendinni, svo tveimur dögum seinna þegar sjúkraþjálfarinn sá þetta vildi hann mynda þetta. Í ljós kom að ég var brotinn. Ég spilaði og æfði í kjölfarið með spelku. Svo tábrotna ég á æfingu, bæði atvikin algjör óheppni. Það er talað um að þetta taki um sex vikur."

Gísli getur ekki spilað fótbolta næstu vikurnar en segist sennilega mikið eiga eftir að hjóla og synda til að halda sér við. Hann fer í aðgerð á hendinni en tíminn er það eina sem læknar tábrotið.

Gísli er 29 ára miðjumaður sem var fenginn til Halmstad frá Breiðabliki eftir síðasta tímabil. Halmstad mætir Malmö í undanúrslitaleik bikarsins í dag og deildin heft svo 1. apríl.


Athugasemdir
banner
banner
banner