Man Utd og Arsenal vilja Guehi - Osimhen gæti farið til Chelsea eða PSG - Geertruida gæti fylgt Slot til Liverpool
   þri 10. júlí 2018 17:00
Magnús Már Einarsson
Bestur í 12. umferð: Ein besta ákvörðunin að taka árs frí
Leikmaður 12. umferðar - Halldór Páll Geirsson (ÍBV)
Halldór Páll Geirsson.
Halldór Páll Geirsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Raggi Óla
„Heilt yfir er ég ánægður með leikinn, sérstaklega eftir að vera búinn að horfa á hann aftur. Blikarnir eru með frábært lið þannig að ég er sérstaklega ánægður að við náum að halda markinu hreinu á móti þeim og það er klárlega eitthvað sem við getum haldið áfram að byggja á," sagði Halldór Páll Geirsson, markvörður ÍBV, við Fótbolta.net í dag.

Halldór Páll er leikmaður 12. umferðar í Pepsi-deildinni en hann skellti markinu í lás í markalausu jafntefli við Breiðablik á laugardag. Halldór varði meðal annars vítaspyrnu frá Gísla Eyjólfssyni seint í leiknum.

„Ég hafði ákveðnar hugmyndir hvert hann myndi skjóta en var ekki búinn að ákveða horn áður en hann hljóp að boltanum, en eftir að hann stillir upp boltanum og hleypur að honum, taldi ég allar líkur á að hann myndi setja boltann til vinstri frá mér séð,"

Æfði í Tyrklandi í vetur
Halldór Páll byrjaði ekki tímabilið í marki ÍBV en þá var Derby Carillo aðalmarkvörður liðsins.

„Það kom aldrei til greina að fara í einhverja fýlu þegar ég fæ að vita að ég verði ekki í byrjunarliðinu. Ég var búinn að vera æfa gríðalega vel frá lok síðasta tímabils og fór meðal annars til Tyrklands í tvær vikur í byrjun janúar þar sem ég æfði tvisvar sinnum á dag með frábærum markmannsþjálfara við topp aðstæður þar. Ég vissi að ég þyrfti bara að vera þolinmóður og bíða eftir mínu tækifæri og grípa það þegar það kæmi."

Fyrsta árið með markmannsþjálfun
Hinn 24 ára gamli Halldór Páll hefur komið öflugur inn í lið ÍBV undanfarin ár en á sínum tíma hafði hann tekið sér frí frá fótbolta.

„Frá því að ég steig mín fyrstu skref í fótbolta hef ég alltaf verið í markinu. Ég spilaði upp alla yngri flokka hjá ÍBV, ásamt því að spila einhverja leiki fyrir KFS þegar ég var í 2.flokki. Eftir síðasta árið mitt í 2.flokki, 2013, tók ég svo ákvörðun um að taka mér árs pásu frá fótbolta þar sem mér fannst ég lítið hafa bætt mig síðustu ár og áhuginn var ekki lengur til staðar. Það er sennilega ein besta ákvörðun sem ég hef tekið."

„Það var svo 2015 sem ég ákvað að byrja aftur og fór í KFS sem hafði komist óvænt upp í 3.deild. Fyrir tímabilið 2016 skrifaði ég undir við ÍBV og spilaði sex leiki og 2017 spilaði ég 12 leiki. Það er skemmtileg staðreynd að núna 2018 er fyrsta tímabilið sem ég fæ markmannsþjálfun, sem hefur því miður aldrei verið að neinu viti í boði hjá félaginu."


Spenntur fyrir leikjunum við Sarpsborg
Eyjamenn hafa verið að ná betra flugi undanfarið eftir erfiða byrjun í sumar.

„Ég er ánægður mér margt sem við höfum verið að gera en ég get ekki sagt að ég sé sáttur með 12 stig eftir 12 leiki. Við höfum fengið tækifæri til að klára leiki en allt of oft verið kærulausir sem hefur kostað okkur. Það er samt buið að vera ágætis stígandi í þessu hjá okkur en við þurfum að fara sækja fleiri sigra og koma okkur frá þessum fallsvæði."

Bikarmeistarar ÍBV taka þátt í Evrópudeildinni í sumar og fyrsta verkefnið þar er heimaleikur gegn norska liðinu Sarpsborg á fimmtudag.

„Ég er mjög spenntur fyrir þessum leikjum á móti Sarpsborg. Þeir eru með gríðalega sterkt og direct lið en ég tel það mjög jákvætt að við byrjun á heimaleik og ég er viss um að við eigum góða möguleika á móti þeim ef úrslitin heima verða góð."

Domino's gefur verðlaun
Halldór Páll ær pizzaveislu frá Domino's í verðlaun fyrir að vera leikmaður umferðarinnar.

Fyrri leikmenn umferðarinnar
Leikmaður 11. umferðar - Hilmar Árni Halldórsson (Stjarnan)
Leikmaður 9. umferðar - Jónatan Ingi Jónsson (FH)
Leikmaður 8. umferðar - Guðmundur Steinn Hafsteinsson (Stjarnan)
Leikmaður 7. umferðar - Hallgrímur Mar Steingrímsson (KA)
Leikmaður 6. umferðar - Almarr Ormarsson (Fjölnir)
Leikmaður 5. umferðar - Sito (Grindavík)
Leikmaður 4. umferðar - Aron Jóhannsson (Grindavík)
Leikmaður 3. umferðar - Emil Ásmundsson (Fylkir)
Leikmaður 2. umferðar - Gísli Eyjólfsson (Breiðablik)
Leikmaður 1. umferðar - Sveinn Aron Guðjohnsen (Breiðablik)
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner