Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   mán 25. mars 2024 11:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Sjö stór nöfn sem missa af Evrópumótinu í sumar
Thibaut Courtois.
Thibaut Courtois.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Erling Haaland.
Erling Haaland.
Mynd: Getty Images
Paul Pogba.
Paul Pogba.
Mynd: Getty Images
Sandro Tonali.
Sandro Tonali.
Mynd: Getty Images
Evrópumótið fer fram í Þýskalandi í sumar en það styttist heldur betur í það.

Á morgun skýrist það hvort Ísland verði á meðal þáttökuþjóða á mótinu en strákarnir okkar spila úrslitaleik við Úkraínu um sæti á mótinu. Sá leikur fer fram í Póllandi.

Götublaðið Mirror ákvað í dag að taka saman lista yfir sjö ansi stór nöfn í fótboltanum sem munu missa af þessu móti í sumar. Það verða ekki allar stjörnurnar þarna, því miður.

Thibaut Courtois
Er líklega besti markvörður í heimi en hefur verið afar óheppinn með meiðsli að undanförnu. Var að vonast til að snúa aftur fyrir lok tímabilsins með Real Madrid en meiddist þá aftur illa á hné og núna er það útilokað.

Það er spurning hvort að hann hefði spilað á mótinu því hann hefur verið að rífast opinberlega við Domenico Tedesco, landsliðsþjálfara Belgíu.

David Alaba
Courtois er ekki eini leikmaður Real Madrid sem hefur verið óheppinn með meiðsli á yfirstandandi tímabili. Hinn 31 árs David Alaba er fyrirliði austurríska landsliðsins og þeirra langbesti maður, en hann verður ekki með í sumar eftir að hafa slitið krossband í desember síðastliðnum.

Erling Haaland
Var markahæsti leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar á síðasta tímabili og er klárlega einn besti leikmaður í heimi, en Noregur missti af enn einu stórmótinu og hann verður því ekki með á EM. Haaland hefur skorað 27 mörk í 30 landsleikjum en hefur ekki enn spilað einn leik á stórmóti.

Viktor Gyökeres
Er búinn að vera sjóðandi heitur í Portúgal með Sporting. Gyökeres er búinn að skora 36 mörk í 39 leikjum á yfirstandandi tímabili en Svíþjóð átti ömurlega undankeppni og því verður Gyökeres ekki með á mótinu í sumar.

Gavi
Þrátt fyrir að vera einungis 19 ára gamall þá hefur Gavi nú þegar spilað 27 A-landsleiki fyrir Spán. Hann skoraði tvisvar í undankeppninni en meiddist illa í síðasta leiknum gegn Georgíu. Hann mun líklega ekki byrja að spila aftur fótbolta fyrr en næsta tímabil hefst vegna þeirra erfiðu meiðsla sem eru að hrjá hann.

Paul Pogba
Pogba hefur verið lykilmaður í sterku frönsku landsliði á síðustu árum. Var hann frábær þegar liðið varð heimsmeistari árið 2018, en hann getur ekki tekið þátt í sumar þar sem hann er í banni frá fótbolta. Pogba var fyrir tæpum mánuði dæmdur í fjögurra ára bann frá fótbolta eftir að hafa fallið á lyfjaprófi. Pogba féll á lyfjaprófi eftir fyrsta deildarleik Juventus á tímabilinu en hann mældist með of hátt magn af testósteróni í líkamanum.

Sandro Tonali
Tonali mun rétt eins og Pogba missa af mótinu vegna leikbanns. Hann braut veðmálareglur og snýr ekki til baka úr banni fyrr en í ágúst. Hann hefur misst af stærstum hluta tímabilsins með Newcastle á Englandi og mun einnig missa Evrópumótinu með ítalska landsliðinu.
Athugasemdir
banner
banner