Man Utd og Arsenal vilja Guehi - Osimhen gæti farið til Chelsea eða PSG - Geertruida gæti fylgt Slot til Liverpool
banner
   þri 24. júlí 2018 15:30
Elvar Geir Magnússon
Bestur í 13. umferð: Liðið brást fullkomlega við mótlætinu
Ásgeir Sigurgeirsson (KA)
Ásgeir fagnar einu af mörkunum þremur.
Ásgeir fagnar einu af mörkunum þremur.
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Ásgeir Sigurgeirsson er leikmaður 13. umferðar Pepsi-deildar karla en hann skoraði þrennu þegar KA vann 5-1 stórsigur gegn Fylki á Akureyrarvelli um liðna helgi.

Ásgeir er kominn með níu mörk í deildinni og er næst markahæstur allra leikmanna.

KA hefur verið að rétta úr kútnum og er búið að vinna þrjá sigra í röð.

„Það var mjög sætt að ná að skora þrennu, ég hef aldrei náð því áður í þessari deild," segir Ásgeir sem fékk þó ekki að eiga boltann þrátt fyrir þrennuna. „Ég verð einhvern veginn að redda mér honum."

Var sigurinn eins sannfærandi og tölurnar gefa til kynna?

„Já við byrjuðum leikinn vel og náðum að setja á þá. Svo fengum við ódýrt víti á okkur en Cristian (Martínez, markvörður) bjargaði okkur. Eftir þetta var þetta ansi öruggt hjá okkur, sérstaklega þegar við urðum manni færri."

Hver er ástæðan fyrir því að KA er komið á beinu brautina og náð að vinna þrjá leiki í röð?

„Það er erfitt að benda á eitthvað eitt. Þegar það koma sigrar í hús og stigunum fjölgar þá kemur sjálfstraustið. Þá verður allt miklu léttara. Þegar sjálfstraustið er komið og allir vinna sína vinnu fyrir hvorn annan þá erum við helvíti sterkir. Við erum þéttir fyrir og fáum fá mörk á okkur þegar við erum í standi auk þess að skora alltaf mörk," segir Ásgeir.

Hlutirnir eru fljótir að snúast við í þessari deild og þegar lið ná að tengja saman sigurleiki er snöggt flug upp töfluna.

„Það er ekki langt síðan við vorum í raun og veru í fallbaráttu. Við erum ekkert öruggir þó við höfum unnið nokkra leiki. Við þurfum bara að halda þessum dampi áfram til að koma okkur á 'réttan' stað í deildinni, þar sem við eigum heima."

Hvernig var að ganga í gegnum þessa erfiðleika, þegar stigasöfnunin gekk illa og umræðan í kringum liðið var neikvætt?

„Maður fann vissulega aðeins fyrir því. Þetta er í fyrsta sinn sem við lendum í alvöru mótlæti síðan ég kom hingað. Mér fannst liðið bregðast fullkomlega við. Við þjöppuðum okkur saman og þetta small."

Er hann með persónuleg markmið fyrir seinni hluta tímabilsins?

„Nei ekkert þannig, bara hjálpa til við að koma okkur á þann stað þar sem ég tel okkur eiga að vera á töflunni. Það er bara auka bónus hvað ég geri, það kemur bara í ljós."

Eins og fleiri lykilmenn í KA er Ásgeir Húsvíkingur og fylgist að sjálfsögðu vel með sínum mönnum í Völsungi. Liðið vann öflugan sigur gegn Aftureldingu á laugardaginn og er komið upp í annað sætið.

Bæjarhátíðin Mærudagar verður á Húsavík um komandi helgi og þá leikur Völsungur gegn Víði. Ásgeir verður þó ekki á Mærudögum þetta árið.

„Þetta er geggjað hjá liðinu. Svo er bara Mærudagsleikurinn framundan svo það gæti ekki verið betra hjá Völlurum. Ég kemst reyndar ekki á þann leik þar sem við erum að fara til Eyja að keppa gegn ÍBV. En maður horfir gegnum Youtube," segir Ásgeir að lokum.

Fyrri leikmenn umferðarinnar
Leikmaður 12. umferðar - Halldór Páll Geirsson (ÍBV)
Leikmaður 11. umferðar - Hilmar Árni Halldórsson (Stjarnan)
Leikmaður 10. umferðar - Kennie Chopart (KR)
Leikmaður 9. umferðar - Jónatan Ingi Jónsson (FH)
Leikmaður 8. umferðar - Guðmundur Steinn Hafsteinsson (Stjarnan)
Leikmaður 7. umferðar - Hallgrímur Mar Steingrímsson (KA)
Leikmaður 6. umferðar - Almarr Ormarsson (Fjölnir)
Leikmaður 5. umferðar - Sito (Grindavík)
Leikmaður 4. umferðar - Aron Jóhannsson (Grindavík)
Leikmaður 3. umferðar - Emil Ásmundsson (Fylkir)
Leikmaður 2. umferðar - Gísli Eyjólfsson (Breiðablik)
Leikmaður 1. umferðar - Sveinn Aron Guðjohnsen (Breiðablik)
Athugasemdir
banner