Man Utd ætlar að reka Ten Hag - Hver tekur við? - Tuchel hefur áhuga á starfinu
   mán 08. október 2018 14:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Óli Stefán í ítarlegu viðtali: Hef verið í mikilli samkeppni við KA
Óli Stefán er nýr þjálfari KA.
Óli Stefán er nýr þjálfari KA.
Mynd: KA
Óli Stefán heldur núna norður á Akureyri.
Óli Stefán heldur núna norður á Akureyri.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Óli Stefán og Milan Stefán Jankovic.
Óli Stefán og Milan Stefán Jankovic.
Mynd: Raggi Óla
,,Þegar KA hafði samband þá sá ég strax mikla og spennandi möguleika
,,Þegar KA hafði samband þá sá ég strax mikla og spennandi möguleika
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
KA endaði í sjöunda sæti Pepsi-deildarinnar á nýliðnu tímabili.
KA endaði í sjöunda sæti Pepsi-deildarinnar á nýliðnu tímabili.
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
„Tilfinningin er góð," segir Óli Stefán Flóventsson um að vera kominn í nýtt starf. Þessi fyrrum þjálfari Grindavíkur skrifaði undir þriggja ára samning við KA fyrir viku síðan.

„Ég komst að þeirri niðurstöðu að þetta væri komið gott í Grindavík. Það fóru einhver lið að hafa samband við mig þegar tímabilið leið undir lok. Þegar KA hafði samband þá sá ég strax mikla og spennandi möguleika," segir Óli Stefán.

„Ég þekki ágætlega til hjá KA. Allan tímann sem ég hef verið hjá Grindavík þá hef ég verið í mikilli samkeppni við KA, þeir fylgdu okkur upp og við höfum spilað við þá í bikarnum nokkrum sinnum, í Lengjubikarnum og svo höfum við auðvitað spilað við þá í Pepsi-deildinni."

„Ég þekki umhverfið þeirra vel og ég þekki fráfarandi þjálfara vel. Ég vissi mikið um baklandið hjá KA. Þegar ég fór að fá þorstann að gera eitthvað annað þá fannst mér margt spennandi þar."

Eins og Óli Stefán segir hafa Grindavík og KA verið í samkeppni síðustu ár. Liðin fóru saman upp úr Inkasso-deildinni og hafa endað á svipuðum stað í Pepsi-deildinni síðustu tvö árin. Getur Óli Stefán tekið næsta skref með KA?

„KA sem félag hefur náð því markmiði sem það hefur lengi stefnt að, að staðsetja sig í efstu deild. Það er nú komið og þá er ágætis tímapunktur til að taka utan um það og búa til góð markmið fyrir næstu ár. Félagið vill gera það."

„Ég er með mínar hugmyndir í því en auðvitað kostar það vinnur allra þeirra sem standa að liðinu. Að við séum með skýr og krefjandi markmið þar sem allir geta stigið í sömu átt, þannig líður mér best að vinna með og þannig verður það."

„Ég á eftir að setjast almennilega niður með þeim sem standa að liðinu, og móta stefnu sem að við teljum okkur geta farið í. En auðvitað miðast þetta við að gera betur en við höfum gert áður. Þannig höldum við áfram."

Óöruggt starf að vera þjálfari
Á meðan Óli Stefán hefur þjálfað Grindavík hefur hann þurft að flakka á milli Grindavíkur og Hafnar í Hornafirði. Fjölskylda hans býr á Höfn í Hornafirði.

Hann segir að svipað verði upp á teningunum núna, að minnsta kosti til að byrja með.

„Fyrst um sinn verður það óbreytt og ástæðan fyrir því er einföld; fjölskyldunni líður mjög vel hérna."

„Það er óöruggt starf að vera þjálfari og að rífa fjölskylduna upp úr því sem henni líður vel með, það er áhætta. Við viljum þá frekar gera það á þennan hátt."

„Okkur hefur tekist að búa til ágætis rútínu. Ég hef nánast alltaf líkt þessu við sjómennsku, svona hafa sjómenn verið frá öræfi alda. Ég held að við getum ráðið við einhvern tíma í þessum aðstæðum svo lengi sem það er unnið eins vel og hægt er að gera."

Það skemmir ekki fyrir að Akureyri er mjög fínn bær. „Akureyri er mjög góður og fallegur bær. Hann er stór og það eru miklir möguleikar í kringum það. Okkur fjölskyldunni hefur alltaf liðið vel þar þegar við höfum farið þar í gegn og stoppað. Ég hlakka til að fara þangað og kynnast þeirri menningu sem Akureyri hefur fram að færa."

Kemur Milan með?
Milan Stefán Jankovic var aðstoðarþjálfari Óla hjá Grindavík og unnu þeir mjög náið saman.

Háværar sögusagnir hafa verið um það að Milan muni fylgja Óla norður en Óli Stefán getur ekki staðfest neitt í þeim efnum.

„Ég get ekki staðfest neitt vegna þess að það er ekki neitt í höndunum enn. Ég, Jankó og Þorsteinn Magnússon, markvarðarþjálfari, höfum unnið afskaplega vel saman síðustu ár. Það væri geggjað að geta haldið þeirri vinnu áfram en ég get ekki staðfest neitt sem er ekki komið í höfn."

„Ég er að skoða mann/menn sem að munu koma inn í þetta með mér. Það er ekkert launungamál að ég ætla mér að búa til öflugt og kröftugt teymi í kringum þetta fótboltalið. Þau mál eru í vinnslu."

„Erum á fullu í þeirri vinnu"
Guðmann Þórisson staðfesti í gær að hann yrði ekki áfram hjá KA og nokkrir aðrir leikmenn eru samningslausir. Má búast við mikið af breytingum í leikmannahópi KA?

„Við erum á fullu í þeirri vinnu núna. Það er samt sem áður svolítið erfitt að keyra inn og grípa einhverja menn án þess að ég viti nákvæmlega hvaða hóp ég hef í höndunum."

„Eitt af því sem gerir KA starfið spennandi er að það koma upp margir öflugir og flottir leikmenn úr starfinu. Það er það sem mig langar að líta á fyrst og fremst áður en við förum í það að taka inn einhverja leikmenn sem væru þá að taka plássið af þeim sem eiga að leiða þetta lið inn í framtíðina."

„Það þarf að stíga varlega til jarðar með það en við erum að skoða leikmenn sem munu 100% passa inn í þá vinnu sem við erum að fara af stað með."

Fékk nokkrar fyrirspurnir
Óli Stefán var orðaður við mörg lið og þar á meðal kvennalandsliðið. Hann viðurkennir að hafa fengið nokkrar fyrirspurnir en KA sé það starf sem hann var spenntastur fyrir.

„Ég fékk ágætis magn af fyrirspurnum, það voru einhverjir sem höfðu áhuga á því sem ég var að fara að gera. Það voru mörg spennandi verkefni sem hefðu getað legið fyrir mér í þeim áttum en ég var langspenntastur fyrir KA."

Óli staðfesti að færeyskt félag hafi haft samband við sig.

„KA lagði þetta vel upp fyrir mig. Ég þekki fólkið í kringum félagið og þekki svo leikmennina, stuðningsmenn og það batterí vegna þess að við í Grindavík höfum svo oft spilað við þá. Þetta er spennandi starf sem bíður mín," sagði Óli að lokum.

Sjá einnig:
Miðjan - Óli Stefán fer yfir víðan völl
Athugasemdir
banner
banner
banner