Real Madrid sýnir Mac Allister áhuga - Greenwood eftirsóttur - Mourinho til Tyrklands? - Slot vill fá Silva
banner
   sun 07. október 2018 11:49
Ívan Guðjón Baldursson
Guðmann staðfestir að hann sé á förum frá KA
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Varnarmaðurinn þaulreyndi Guðmann Þórisson staðfesti í samtali við Fótbolta.net að hann er á förum frá KA eftir þrjú ár hjá félaginu.

„Eftir yndislegan tíma hjá KA er maður smá sorgmæddur að vera búinn að ákveða að flytja í bæinn," segir Guðmann.

„Það eru ýmsar ástæður á bakvið það. Ég á orðið kærustu í bænum og það verður gott að flytja í bæinn og vera nálægt fjölskyldu og vinum."

Guðmann er 31 árs gamall og hefur verið óheppinn með meiðsli undanfarin tvö ár. Hann spilaði 9 leiki í Pepsi-deildinni í sumar líkt og í fyrra.

„Ég lenti í erfiðum meiðslum 2017 en í ár var þetta blessaða rifbeinsbrot sem hélt mér frá meira en helming af mótinu."

Guðmann hefur nú þegar rætt við lið í Pepsi deildinni fyrir næsta sumar.

„Ég er búinn að heyra í einhverjum liðum en allar þær viðræður eru komnar stutt á veg. Ég hef ennþá mjög mikinn metnað og persónulega finnst mér ég eiga nóg inni."

Guðmann á 162 meistaraflokksleiki að baki hér á landi og hefur tvisvar sinnum orðið Íslandsmeistari með FH. Hann hefur meðal annars verið orðaður við uppeldisfélag sitt Breiðablik að undanförnu.
Athugasemdir
banner
banner