Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   fös 08. mars 2024 11:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
„Útiloka ekki sigurmark frá Conor Bradley frá miðju á 15. mínútu í uppbótartíma"
Liverpool er sem stendur á toppnum.
Liverpool er sem stendur á toppnum.
Mynd: Getty Images
Man City eru ríkjandi Englands- og Evrópumeistarar.
Man City eru ríkjandi Englands- og Evrópumeistarar.
Mynd: EPA
Tómas Þór Þórðarson, ristjóri enska boltans á Símanum.
Tómas Þór Þórðarson, ristjóri enska boltans á Símanum.
Mynd: Baldur Kristjánsson
Stærsti leikur tímabilsins til þessa í enska boltanum er á sunnudaginn þegar Liverpool tekur á móti Manchester City. Leikir þessara liða hafa oft skiptu miklu máli og leikurinn núna gerir það svo sannarlega. Fyrir leikinn er Liverpool á toppnum með einu stigi meira en Man City.

„Eins og alltaf þegar að þessi lið mætast erum við að fara að sjá hágæða fótboltaleik," segir Tómas Þór Þórðarson, ristjóri enska boltans hjá Símanum, við Fótbolta.net.

„Þetta hafa verið gæðamestu fótboltaleikir bestu fótboltadeildar í heimi undanfarin ár og vona að það verði engin breyting á. Stóri munurinn er vissulega sá að nú er Arsenal með í hringiðunni þannig spurning hvernig liðin líta á þennan leik. Jafntefli er enginn dauði fyrir Liverpool og miðað við meiðslavandræðin þar óttast ég smá að það verði einhvers staðar í huga þeirra."

Það er erfitt að meta það hvort liðið sé sigurstranglegra fyrir þennan mikla stórleik.

„Heimavöllurinn vegur þungt þegar maður pælir í hvort liðið sé sigurstranglegra," segir Tómas. „Liverpool hefur ekki verið að sækja gull í greipar City-manna á Etihad og þá er City-liðið með fleiri á fótum þessa dagana. Svo hefur Pep almennt verið frábær í þessum stórleikjum en það er samt svo rosalegur meðbyr með Liverpool þessa dagana að ég útiloka ekkert sigurmark frá Conor Bradley frá miðju á fimmtándu mínútu í uppbótartíma."

Ótrúleg titilbarátta
Það hefur verið ótrúlega skemmtilegt að fylgjast með titilbaráttunni í ensku úrvalsdeildinni á þessu tímabili en eins og Tómas nefnir, þá er Arsenal líka með í baráttunni, aðeins tveimur stigum frá toppnum. Mun þessi leikur hafa úrslitaáhrif í titilbaráttunni?

„Hann mun hafa áhrif, það er alveg klárt en við verðum að horfa til hins stórleiksins í mánuðinum. City og Arsenal mætast eftir þrjár vikur, á sjálfan Páskadag. Þegar dagur verður að kveldi kominn 31. mars er við jöpplum á vonda namminu úr páskaeggjunum okkar munum við vita ansi margt um toppbaráttuna í ensku úrvalsdeildinni," segir Tómas.

En er þetta skemmtilegasta titilbarátta sem hann hefur fylgst með?

„Þær hafa verið nokkrar frábærar á milli Liverpool og City undanfarin ár en það er alveg frábært að vera með þrjú lið í pottinum. Svo má leita eitthvað aftur í tímann til að finna frábærar titilbaráttur þegar maður er orðinn þetta gamall, en þetta er sú besta í svolítinn tíma."

Alvöru hátíðarútsending
Það verður alvöru veisla á Síminn Sport og góð umfjöllun í kringum stórleikinn, sem og aðra leiki.

„Við verjum helginni á Lancaster-svæðinu og nýtum ferðina og kíkjum á Old Trafford þar sem Manchester United og Everton berjast í hádeginu á laugardaginn um mikilvæg stig á sitthvorum enda töflunnar. Svo verður Ofur-Sunnudagur á Anfield á sunnudaginn," segir Tómas.

„Við hitum upp fyrir Meistaradeildarbaráttuleik Aston Villa og Spurs frá Anfield og eftir hann tekur við 45 mínútna upphitun fyrir leik ársins hingað til. Við verðum með City-goðsögnina Shaun Wright-Phillips með okkur fyrir leik og manninn sem Liverpool-stuðningsmenn kalla Guð, Robbie Fowler, eftir leik í Vellinum þegar við gerum upp leikinn og umferðina í beinni frá Anfield. Alvöru hátíðarútsending á fótboltahátíðadegi."

Stórleikur Liverpool og Man City er á sunnudaginn klukkan 15:45.
Athugasemdir
banner
banner