Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
banner
   lau 09. mars 2024 22:10
Ívan Guðjón Baldursson
Spánn: Girona og Sociedad aftur á sigurbraut
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Síðustu leikjum dagsins er lokið í spænska boltanum, þar sem Girona og Real Sociedad eru komin aftur á sigurbraut eftir slæmt gengi að undanförnu.

Girona fékk Osasuna í heimsókn í kvöld eftir að hafa aðeins unnið einn af fimm leikjum sem komu þar á undan.

Portu skoraði eina markið í fyrri hálfleik, eftir stoðsendingu frá Viktor Tsygankov, og innsiglaði hinn bráðefnilegi Sávio sigurinn með marki á lokakafla leiksins.

Girona var með stjórn á leiknum frá upphafi til enda og verðskuldaði sigurinn. Heimamenn hefðu eflaust viljað tvöfalda forystuna fyrr, en það hjálpaði að gestirnir frá Pamplona ógnuðu lítið sem ekkert.

Girona er í öðru sæti eftir þennan sigur, einu stigi fyrir ofan Barcelona og fjórum stigum á eftir toppliði Real Madrid sem á leik til góða á morgun.

Real Sociedad var þá búið að tapa fjórum leikjum í röð í öllum keppnum fyrir viðureign sína gegn Granada í dag. Liðið hafði aðeins unnið einn af síðustu tíu leikjum sínum og lenti undir í dag.

Myrto Uzuni kom heimamönnum í Granada yfir með marki úr vítaspyrnu, en Umar Sadiq jafnaði fyrir gestina. Granada var sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og tók forystuna á ný þegar Uzuni skoraði í uppbótartímanum.

Granada var með 2-1 forystu nánast allan seinni hálfleikinn þrátt fyrir yfirburði gestanna frá San Sebastián. Yfirburðirnir skiluðu sér loks með marki þegar Robin Le Normand jafnaði á 80. mínútu, aðeins fimm mínútum áður en Andre Silva kom boltanum í netið til að setja sigurmark.

Afar dýrmæt stig fyrir Sociedad sem er í evrópusæti sem stendur en á í hættu á að missa það.

Girona 2 - 0 Osasuna
1-0 Portu ('13 )
2-0 Savio ('86 )

Granada CF 2 - 3 Real Sociedad
1-0 Myrto Uzuni ('21 , víti)
1-1 Umar Sadiq ('33 )
2-1 Myrto Uzuni ('45+3 )
2-2 Robin Le Normand ('80 )
2-3 Andre Silva ('85 )
Athugasemdir
banner