Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
banner
   sun 10. mars 2024 22:19
Ívan Guðjón Baldursson
Spánn: Sörloth hetjan er Villarreal vann í Betis
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Real Betis 2 - 3 Villarreal
1-0 Guido Rodriguez ('30)
1-1 Alex Baena ('40)
2-1 Willian Jose ('45+2)
2-2 Sokratis Papastathopoulos, sjálfsmark ('48)
2-3 Alexander Sörloth ('67)

Fjörugum evrópuslag var að ljúka í spænsku deildinni þar sem Real Betis og Villarreal tókust á.

Liðin skiptust á að skora í jöfnum fyrri hálfleik þar sem færanýting heimamanna var sérstaklega góð og var staðan 2-1 í leikhlé.

Guido Rodriguez og Willian Jose skoruðu mörk Betis og var það Pablo Fornals, fyrrum leikmaður West Ham, sem lagði upp seinna markið.

Alex Baena skoraði eina mark Villarreal fyrir leikhlé eftir stoðsendingu frá Norðmanninum stóra Alexander Sörloth.

Seinni hálfleikurinn hófst á sjálfsmarki Sokratis Papastathopoulos, fyrrum leikmanni Arsenal og Borussia Dortmund, eftir fyrirgjöf og var staðan því orðin jöfn, 2-2.

Það ríkti þokkalegt jafnræði með liðunum en það voru gestirnir í liði Villarreal sem skoruðu næsta mark. Þar var Sörloth á ferðinni þegar hann skoraði eftir undirbúning frá Gerard Moreno, sem átti frábæran leik í sóknarlínunni.

Betis tókst ekki að jafna leikinn og er Sörloth því hetja Villarreal í kvöld þar sem hann lagði upp fyrsta mark liðsins í leiknum og skoraði svo sigurmarkið. Moreno komst ekki á blað sjálfur en átti stóran þátt í öllum mörkum gestanna.

Betis þurfti sigur til að endurheimta evrópusætið sitt en liðið er núna einu stigi á eftir Real Sociedad í evrópubaráttunni. Þetta var þriðji sigurinn í röð hjá Villarreal, en liðið er þó átta stigum frá evrópubaráttunni eftir skelfilegt gengi á fyrri hluta deildartímabilsins.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner