Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   lau 09. mars 2024 19:20
Ívan Guðjón Baldursson
Dembélé, Balotelli og Pépé skoruðu í Mið-Austurlöndunum
Mynd: EPA
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Það fóru leikir fram í efstu deildum Sádi-Arabíu og Tyrklands í dag, þar sem ýmsar stjörnur létu ljós sitt skína.

Lærisveinar Steven Gerrard í Al-Ettifaq unnu þægilegan sigur á heimavelli gegn Abha í sádi-arabíska boltanum, þar sem Karl Toko Ekambi og Moussa Dembélé komust báðir á blað.

Al-Ettifaq vann 3-0 sigur en Grzegorz Krychowiak skoraði einnig sjálfsmark í leiknum.

Demarai Gray, Georginio Wijnaldum og Seko Fofana voru meðal byrjunarliðsmanna Al-Ettifaq í sigrinum gegn Abha. Ettifaq er í sjöunda sæti deildarinnar, með 34 stig úr 23 umferðum.

Stjörnum prýtt lið Al-Ahli er áfram í þriðja sæti eftir nauman sigur á útivelli gegn Al-Taawon.

Riyad Mahrez og Allan Saint-Maximin voru meðal byrjunarliðsmanna Al-Ahli en þeim var skipt útaf þegar staðan var enn markalaus á 74. mínútu.

Edouard Mendy, Merih Demiral, Franck Kessié og Roberto Firmino voru einnig í byrjunarliði gestanna en það var Firas Al-Buraikan sem skoraði eina mark leiksins á 82. mínútu til að tryggja dýrmæt stig.

Al-Ahli er með 47 stig eftir 23 umferðir, 18 stigum eftir toppliði Al-Hilal en í afar þægilegri stöðu í baráttunni um meistaradeildarsæti.

Mario Balotelli kom þá inn af bekknum og skoraði jöfnunarmark Adana Demirspor gegn Konyaspor í efstu deild tyrkneska boltans. Balotelli gerði jöfnunarmarkið á 87. mínútu en hann er búinn að skora þrjú mörk í síðustu fimm deildarleikjum síðan hann kom aftur úr meiðslum.

Adana Demirspor er um miðja deild eftir þetta jafntefli, sjö stigum fyrir ofan fallbaráttuna og tíu stigum frá evrópusæti.

Fyrrum úrvalsdeildarleikmennirnir Nicolas Pépé og Trézéguet lögðu þá upp mörk fyrir hvorn annan í stórsigri Trabzonspor gegn Karagumruk. Thomas Meunier var einnig í byrjunarliði Trabzonspor í sigrinum.

Al-Ettifaq 3 - 0 Abha
1-0 Grzegorz Krychowiak ('54, sjálfsmark)
2-0 Karl Toko Ekambi ('73)
3-0 Moussa Dembele ('89)

Al-Taawon 0 - 1 Al-Ahli
0-1 Firas Al-Buraikan ('82)

Konyaspor 2 - 2 Adana Demirspor
1-0 S. Cikalleshi ('9, víti)
1-1 Y. Erdogan ('32)
2-1 S. Cikalleshi ('45, víti)
2-2 Mario Balotelli ('87)

Trabzonspor 5 - 1 Karagumruk
0-1 Marcao ('14)
1-1 Enis Bardhi ('32)
2-1 Davide Biraschi ('64, sjálfsmark)
3-1 Trezeguet ('70)
4-1 Nicolas Pepe ('76)
5-1 U. Bozok ('93)
Athugasemdir
banner
banner
banner