Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   fim 21. mars 2024 21:47
Brynjar Ingi Erluson
Draumurinn um EM lifir góðu lífi eftir magnaðan sigur á Ísrael - Mæta Úkraínu í úrslitum
Icelandair
Albert var á eldi gegn Ísraelum
Albert var á eldi gegn Ísraelum
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Arnór Ingvi skoraði annað mark Íslands
Arnór Ingvi skoraði annað mark Íslands
Mynd: Getty Images
Ísrael 1 - 4 Ísland
1-0 Eran Zahavi ('31 , víti)
1-1 Albert Guðmundsson ('39 )
1-2 Arnór Ingvi Traustason ('42 )
1-2 Eran Zahavi ('80 , misnotað víti)
1-3 Albert Guðmundsson ('83 )
1-4 Albert Guðmundsson ('87 )
Rautt spjald: Roy Revivo, Ísrael ('73) Lestu um leikinn

Íslenska karlalandsliðið er komið í úrslit EM-umspilsins eftir magnaðan 4-1 sigur á Ísrael í Búdapest í Ungverjalandi í kvöld. Albert Guðmundsson skoraði þrennu og átti þátt í einu marki í endurkomu sinni.

Leikurinn fór nokkuð hægt af stað. Ísraelar voru mikið í því að dæla fyrirgjöfum inn í teiginn á meðan Ísland skapaði sér lítið af álitlegum færum.

Íslenska liðið komst nálægt því að komast yfir á 28. mínútu er Arnór Sigurðsson lék sér með boltann fyrir framan teig Ísraela áður en hann skaut að marki. Omri Glazer varði boltann til hliðar á Orra Stein Óskarsson, en hann missti jafnvægið og seti boltann framhjá markinu.

Nokkrum mínútum síðar fengu Ísraelar vítaspyrnu er Daníel Leó Grétarsson braut af sér í teignum. Eren Zahavi steig á punktinn, var ískaldur og setti boltann fast upp við stöng. Hákon Rafn Valdimarsson skutlaði sér í rétt horn en vítið var öruggt.

Íslensku strákarnir stilltu saman strengi og komu til baka. Hákon Arnar Haraldsson fiskaði aukaspyrnu á 39. mínútu og var það Albert sem skoraði úr henni með frábæru skoti yfir vegginn og efst í hægra hornið.

Þremur mínútum síðar var Ísland komið í forystu. Albert átti hornspyrnu á nærstöng á Sverri Inga Ingason. Hann skallaði boltann aftur fyrir sig og í hlaupaleið Arnórs Ingva Traustasonar, sem skaut í varnarmann Ísraela og í netið.

Ísland fór með 2-1 forystu inn í hálfleikinn og það nokkuð sanngjarnt.

Í þeim síðari skiptu Ísraelar Oscar Gloukh, aðalstjörnu sinni, inn á og var hann að skapa alls konar usla í sóknarleiknum, en Hákon Rafn var öruggur í sínum aðgerðum í teignum og varði meðal annars eitt gott skot úr teignum.

Sautján mínútum fyrir leikslok misstu Ísraelar leikmann af velli er Roy Revivo hamraði Arnór Sigurðsson niður með hættulegri tæklingu. Anthony Taylor, dómari leiksins, reif upp rauða spjaldið nokkrum sekúndum síðar, en Arnór þurfti að fara af velli vegna meiðsla.

Ísrael fékk gullið tækifæri til að jafna leikinn á 80. mínútu er Guðmundur Þórarinsson var brotlegur fyrir að handleika knöttinn eftir aukaspyrnu. Zahavi fór aftur á punktinn en brenndi af, Íslendingum til mikillar hamingju.

Albert setti í kjölfarið í næsta gír og gerði út um leikinn með tveimur mörkum. Hann gerði annað mark sitt á 83. mínútu er Glazer varði skot hans yfir sig og í netið. Þrennan var síðan fullkomnuð fjórum mínútum síðar eftir að Glazer varði skot Jóns Dags til hliðar og á Albert sem skoraði af stuttu færi.

Magnaður sigur Íslands sem er nú komið í úrslit umspilsins og aðeins einum leik frá því að tryggja sér sæti á Evrópumótið í Þýskalandi í sumar. Andstæðingur Íslands verður Úkraína, sem vann Bosníu og Hersegóvínu, 2-1, í kvöld.
Athugasemdir
banner
banner
banner