Man Utd borgar Sporting bætur - Rafael Leao orðaður við Barcelona - Kerkez á blaði Liverpool
   mið 30. október 2024 11:32
Elvar Geir Magnússon
Kristján Guðmunds og Matthías stýra Val saman (Staðfest)
Kristján Guðmundsson.
Kristján Guðmundsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Matthías Guðmundsson.
Matthías Guðmundsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Kvennalið Vals endaði í öðru sæti Bestu deildarinnar og vann Mjólkurbikarinn.
Kvennalið Vals endaði í öðru sæti Bestu deildarinnar og vann Mjólkurbikarinn.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Matthías Guðmundsson og Kristján Guðmundsson hafa saman tekið við kvennaliði Vals, þeir eru báðir aðalþjálfarar liðsins.

Fjallað var um það í gær að Matthías, sem er fyrrum leikmaður Vals og fyrrum aðstoðarmaður Péturs Péturssonar hjá kvennaliðinu, væri að taka við en nú hefur verið opinberað að Kristján verður með honum.

Kristján þekkir vel til hjá Val en hann þjálfaði meistaraflokk karla hjá félaginu í tvö ár.

„Ég spilaði undir Kristjáni sem leikmaður í Val og ber mikla virðingu fyrir honum sem þjálfara. Við höfum rætt saman og horfum á hlutina mjög svipað.," segir Matthías í fréttatilkynningu Vals.

Fréttatilkynning Vals:
Matthías og Kristján Guðmundssynir mynda nýtt þjálfarateymi meistaraflokks kvenna í fótbolta. Stjórn Knattspyrnudeildar Vals gerir þriggja ára samninga við þá félaga en þeir verða báðir aðalþjálfarar liðsins.

Matthías þekkjum við Valsarar vel enda lék hann með félaginu nánast allan sinn feril og hóf þjálfaraferilinn hjá félaginu. Hann náði eftirtektarverðum árangri með 2. flokk félagsins og varð síðar aðstoðarmaður Péturs Péturssonar áður en hann tók við liði Gróttu fyrir síðasta tímabil þar sem hann hefur gert frábæra hluti.

Kristján Guðmundsson er einnig þekkt stærð innan Vals því hann hefur bæði komið að þjálfun yngri flokka félagsins auk þess sem hann þjálfaði meistaraflokk karla hjá Val í tvö ár. Kristján hefur þjálfað hjá mörgum félögum á landinu, m.a. unnið bikarmeistaratitla með karlaliðum Keflavíkur og ÍBV. Nú síðast þjálfaði Kristján kvennalið Stjörnunnar í tæp 6 ár.

„Við erum afskaplega ánægð með að hafa náð þessum tveimur snillingum til okkar og ég er ekki í nokkrum vafa um að þeir muni mynda sterkt þjálfarateymi. Báðir eru þeir mjög færir þjálfarar og jákvæðir og skemmtilegir karakterar. Þarna erum við að fá inn mikla reynslu sem skiptir gríðarlegu máli og ég held líka að þeir geti lært helling hvor af öðrum,“ segir Björn Steinar Jónsson formaður knattspyrnudeildar Vals.

Matthías Guðmundsson segist afskaplega ánægður með að vera kominn heim í Val.

„Það er gott að vera kominn heim og ég fann það þegar þau höfðu samband við mig að þetta er eitthvað sem ég er tilbúinn í. Ég hef átt frábæran tíma í Gróttu og það er erfitt að yfirgefa allt það frábæra fólk sem þar starfar en þetta er rétt skref fyrir mig. Ég spilaði undir Kristjáni sem leikmaður í Val og ber mikla virðingu fyrir honum sem þjálfara. Við höfum rætt saman og horfum á hlutina mjög svipað. Ég hlakka til að koma inn af krafti og hjálpa til við að bæta kvennaliðið okkar enn frekar og gefa ungum og efnilegum valsstelpum tækifæri,“ segir Matthías Guðmundsson.

Og Kristján er á sama máli.

„Það eru ekki mörg lið á Íslandi sem gátu sannfært mig um að koma og þjálfa en ég veit að Valur er stórkostlegt félag og þarna virðist vera komið inn fólk sem hefur áhuga á því að byggja upp til framtíðar. Verkefnið er spennandi enda frábærir leikmenn í liðinu sem verður gaman að vinna með og búa til enn betra lið. Matti hefur komið inn í þjálfun af krafti og hann er auðvitað bara einn mesti Valsari sem maður þekkir og frábær karakter. Það er heiður að fá að mynda teymi aðalþjálfara Vals með Matta og ég get ekki beðið eftir því að byrja að undirbúa liðið fyrir það verkefni að ná í titilinn aftur,“ segir Kristján Guðmundsson.

Ljóst er að þeirra Matta og Kristjáns bíður verðugt verkefni en Pétur Pétursson hætti sem aðalþjálfari liðsins eftir sjö sigursæl ár í starfi á dögunum. Hallgrímur Heimisson sem verið hefur aðstoðarþjálfari Péturs er einnig yfirþjálfari yngri flokka félagsins og mun einbeita sér að því ásamt öðrum verkefnum hjá Val. Þá er samningur Ásgerðar Baldursdóttur sem var einnig í þjálfarateymi Péturs að renna út og verður hann ekki endurnýjaður.
Athugasemdir
banner