Liverpool skoðar Davies - City fer á markaðinn - Man Utd vill Gutierrez - Bruno og Garnacho ekki öruggir - Fleiri orðaðir frá United
   fim 31. október 2024 15:10
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Davíð um leikmannamál FH: Höfum áhuga á Birki en engar viðræður við Frederik
Yfirmaður fótboltamála hjá FH.
Yfirmaður fótboltamála hjá FH.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Birkir Valur Jónsson.
Birkir Valur Jónsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Logi stefnir erlendis.
Logi stefnir erlendis.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Markmenn FH áttu ekki frábært tímabil og FH hefur verið orðað við aðra markmenn í haust. FH hefur ekki farið í viðræður við Frederik Schram.
Markmenn FH áttu ekki frábært tímabil og FH hefur verið orðað við aðra markmenn í haust. FH hefur ekki farið í viðræður við Frederik Schram.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
FH endaði í sjötta sæti Bestu deildarinnar 2024, endaði einu sæti neðar og með sex stigum minna en tímabilið 2023. Liðið fékk á sig fjórum mörkum minna í ár og skoraði sex mörkum minna.

Fótbolti.net ræddi við Davíð Þór Viðarsson, yfirmann fótboltamála hjá FH, um leikmannamál.

FH var sterklega orðað við Birki Val Jónsson, varnarmann HK, í sumarglugganum en skiptin gengu ekki í gegn þá. FH hefur áfram áhuga á Birki sem er að verða samningslaus.

„Við höfðum áhuga á Birki Val í sumar og höfum ennþá áhuga á honum. Við munum tilkynna það ef við náum að ganga frá því," segir Davíð.

Þjálfararnir áfram
Heimir Guðjónsson verður áfram með liðið á næsta ári og Kjartan Henry Finnbogason honum til aðstoðar. „Þeir eru báðir með samning áfram og við erum mjög ánægðir með þeirra störf, það verður engin breyting þar á."

Jóhann Ægir áfram - Viðræður við Loga Hrafn og Vuk
Það eru nokkrir leikmenn sem eru að verða samningslausir hjá FH. Ljóst er að Finnur Orri Margeirsson verður ekki áfram hjá FH og Davíð staðfestir að Jóhann Ægir Arnarsson verði áfram í Kaplakrika.

„Við höfum verið í viðræðum við Loga Hrafn Róbertsson og Vuk Oskar. Logi Hrafn stefnir erlendis sem er besta mál og vonandi tekst honum að finna gott félag erlendis. Við höfum ekki náð saman við Vuk ennþá, hann er að hugsa sín mál og veit hvar hann hefur okkur."

Vuk hefur verið orðaður við önnur félög í Bestu deildinni, KA, Vestri og KR verið nefnd til sögunnar.

Robby Wakaka kom til FH frá Gent í Belgíu í sumarglugganum. Hann var með samning út tímabilið og á Davíð síður von á því að hann verði áfram. ;,Við tókum hann inn til að vera klárir ef Logi hefði farið erlendis í haust. Ég tel litlar líkur á því að hann verði áfram."

Lokahluti mótsins vonbrigði - Vilja vera með ungt lið
Er einhver staða sem Davíð veit að FH þarf að styrkja fyrir næsta tímabil?

„Það er ekkert sem er ákveðið. Við áttum ekki góðan síðasta part mótsins, fengum ekki nógu mikið af stigum í ágúst, september og október. Seinni hlutinn var okkur erfiður. Við vorum að vonast til að geta haldið okkur í kringum 4. sætið og jafnvel barist um 3. sætið, en það gekk ekki hjá okkur sem voru vonbrigði. Við erum að skoða okkar mál og gerum það í rólegheitunum. Það var mjög margt gott, sérstaklega fyrri hlutann. Við vorum, að ég held, með næstyngsta liðið í deildinni í ár sem er ágætis breyting frá því hvernig þetta var fyrir tveimur árum. Það er sú leið sem við stefnum á að halda áfram, viljum vera með ungt og öflugt lið með reynslumikla menn í bland sem geta hjálpað yngri leikmönnunum."

Ekki í viðræðum við Frederik og Baldvin ekki á lista
Davíð var að lokum spurður út í slúðursögur síðustu vikna. FH hefur verið orðað við markvörðinn Frederik Schram sem er að verða samningslaus. Hefur félagið rætt við Frederik?

„Nei, það hefur mikið verið talað um að við séum í viðræðum við hann, en það er ekki rétt."

Baldvin Þór Berndsen, varnarmaður Fjölnis, hefur sömuleiðis verið orðaður við FH, og reyndar fleiri félög í Bestu deildinni.

„Eins og með flesta leikmenn á Íslandi þá veit ég af honum, stóð sig vel með Fjölnisliðinu í sumar, en við erum ekki að skoða hann, hann er ekki á lista hjá okkur," segir Davíð.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner