David á blaði hjá Man Utd, Liverpool og Arsenal - Liverpool undirbýr tilboð í Tchouameni - Man Utd reynir aftur við Branthwaite
banner
   mið 30. október 2024 21:25
Brynjar Ingi Erluson
Enski deildabikarinn: Gakpo skoraði tvö er Liverpool kom sér í 8-liða úrslit
Cody Gakpo skoraði bæði mörk Liverpool
Cody Gakpo skoraði bæði mörk Liverpool
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Brighton 2 - 3 Liverpool
0-1 Cody Gakpo ('46 )
0-2 Cody Gakpo ('63 )
1-2 Simon Adingra ('81 )
1-3 Luis Díaz ('85 )
2-3 Tariq Lamptey ('90 )

Liverpool er komið áfram í 8-liða úrslit enska deildabikarsins eftir að hafa unnið Brighton, 3-2, á Amex-leikvanginum í Brighton í kvöld.

Arne Slot gerði átta breytingar á byrjunarliði sínu. Tékkneski markvörðurinn Vitezslav Jaros var einn þeirra sem kom inn í liðið, en hann átti nokkrar flottar rispur.

Færin voru ekki mörg í fyrri hálfleiknum. Liverpool var að spila ágætis fótbolta en tókst ekki að klára sóknirnar með marki.

Það varð breyting á því í síðari hálfleiknum. Tæp mínúta var liðin þegar Cody Gakpo kom Liverpool í forystu. Hollendingurinn fékk boltann úti vinstra megin, skar sig inn í teiginn og hamraði boltanum í fjærhornið. Glæsilegt mark.

Jaros í marki Liverpool átti stórkostlega vörslu aðeins tveimur mínútum síðar frá Simon Adingra. Fílabeinsstrendingurinn mætti fyrirgjöf í teignum og stangaði honum í átt að marki, en Jaros tókst á einhvern ótrúlegan hátt að verja boltann í horn.

Þegar hálftími var eftir gerði Gakpo annað mark sitt. Hann vann boltann af Tariq Lamptey, keyrði í átt að teignum og átti annað þrumuskot sem hafnaði í netinu.

Tíu mínútum fyrir leikslok minnkaði Brighton muninn eftir mistök Jarell Quansah í vörninni. Varnarmaðurinn átti slaka sendingu sem hafnaði hjá Evan Ferguson. Skot hans fór beint á Jaros sem varði boltann út á Adingra sem skoraði af stuttu færi.

Luis Díaz kom Liverpool aftur í tveggja marka forystu aðeins nokkrum mínútum síðar.

Það var hálfpartinn eins og leikmenn Brighton nenntu ekkert að verjast. Boltinn fékk að skoppa í teignum og náði Díaz að taka við honum, koma sér í skotstöðu og leggja boltann í vinstra hornið.

Brighton náði inn öðru marki undir lok venjulegs leiktíma er skot hans fyrir utan teig fór af varnarmanni og í netið, en lengra komst Brighton ekki.

Liverpool fer áfram í 8-liða úrslit deildabikarsins en drátturinn fer fram eftir leik Tottenham og Manchester City.
Athugasemdir