Amorim, Frank, Ten Hag, De Bruyne, Isak, Olise, Gyökeres og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   mán 16. september 2019 13:30
Magnús Már Einarsson
Össur Skarphéðins: Dásamlegt að sjá Norwich leika sér að meisturunum
Össur í heimsókn á Grænlandi á dögunum.
Össur í heimsókn á Grænlandi á dögunum.
Mynd: Úr einkasafni
Össur Skarphéðinsson, fyrrum alþingismaður, gladdist mikið um helgina þegar lið hans Norwich vann Englandsmeistara Manchester City 3-2. Össur hefur verið stuðningsmaður Norwich í áratugi en kom þessi sigur honum ekki á óvart?

„Ekki algjörlega," sagði Össur við Fótbolta.net í dag. „Það eru vissir veikleikar hjá City og fyrirfram gáfu sér allir að þeir myndu rúlla yfir mína menn ekki síst í ljósi ótrúlegs meiðslalista. Á meðan gat Norwich gefið dauðann og djöfulinn í allt og bara spilað sinn ótrúlega djarfa sóknarbolta."

„Sálfræðilega hentaði þessi staða Kanarífuglunum vel enda léku þeir frá upphafi af fullkomnu virðingarleysi fyrir peningamaskínunni frá Manchester. Drengirnir sem komu inn í vörnina voru rosalega þéttir, og fyrir utan Finnann fljúgandi, Teemu Pukki, eru (Emi) Buendia og (Marco) Stieperman sjóðheitir. Svo innst inni kom mér sigurinn ekki alveg á óvart. En það var jafn ótrúlegt og dásamlegt að sjá þá leika sér að meisturunum."


Össur hefur upplifað tímana tvenna sem stuðningsmaður Norwich í gegnum tíðina en liðið kom enn á ný upp í ensku úrvalsdeildina í vor.

„Ég átti heima í Norwich þegar ég var í doktorsnámi og við Árný kona mín bjuggum í verkamannahverfi rétt hjá Carrow Road. Á þeim slóðum snérist allt um Kanarífuglana. Knæpan uppá horni var þakin Nowich-litum og þar var líf og fjör í kringum alla leiki félagsins," segir Össur.

„Félagið sikksakkaði á þessum árum milli fyrstu og annarrar deildar, þannig að borgin var eitt árið á léttu gleðifylleríi og hitt árið á svartnættisbömmer. Fótboltinn skipti öllu fyrir svo marga. Það var ekki annað hægt en smitast. Svo hef ég alltaf í lífinu stutt hina hrjáðu og smáðu svo það er eiginlega lógíst að binda ævilanga tryggð við lið einsog Norwich City Football Club," sagði Össur að lokum við Fótbolta.net.
Athugasemdir
banner
banner
banner