Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
banner
   mán 11. mars 2024 06:00
Ívan Guðjón Baldursson
Brereton Díaz þarf að læra spænsku
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Ben Brereton Díaz er ekki í landsliðshópi Síle fyrir æfingaleiki liðsins gegn Frakklandi og Albaníu í næsta landsleikjahléi.

Díaz er 24 ára gamall sóknarmaður sem leikur fyrir Sheffield United á láni frá Villarreal og hefur skorað tvö mörk í fjórum úrvalsdeildarleikjum frá komu sinni til félagsins.

Hann spilaði fyrir yngri landslið Englands en þótti ekki nógu góður fyrir A-landsliðið, en Síle hafði þá samband við hann og spilaði hann sinn fyrsta A-landsleik sumarið 2021.

Diaz hefur skorað 7 mörk í 27 landsleikjum síðan þá, en Ricardo Gareca nýr landsliðsþjálfari ætlar ekki að kalla hann aftur upp í landsliðið fyrr en leikmaðurinn lærir betri spænsku.

Diaz er fæddur á Englandi þar sem faðir hans er enskur en móðir hans frá Síle.

„Það er mikilvægt að hann læri spænsku, það eru meira en tvö ár síðan hann spilaði fyrsta landsleikinn og tók þátt í Copa América. Hann hefur haft nægan tíma til að læra tungumálið," segir Gareca, sem tók við landsliði Síle í janúar.

„Þetta er eitthvað sem ég hef talað við hann um. Hann verður að læra spænsku til að geta átt betri samskipti við liðsfélagana, þjálfarateymið, stuðningsmennina og fjölmiðlana. Ef hann hefur raunverulegan áhuga á því að spila fyrir Síle þá getur hann lært tungumálið."
Athugasemdir
banner
banner
banner