Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   þri 12. mars 2024 17:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Ekki góð tíðindi fyrir Elías: Lössl fer hamförum og fær mikið hrós
Elías Rafn Ólafsson.
Elías Rafn Ólafsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Jonas Lössl.
Jonas Lössl.
Mynd: EPA
Jonas Lössl hefur verið algjörlega stórkostlegur í markinu hjá Midtjylland í Danmörku að undanförnu. Lössl er orðinn 35 ára en miðað við það hvernig hann hefur verið að spila, þá er hann besti markvörður dönsku úrvalsdeildarinnar.

Per Frimann, sem spilaði á sínum tíma 17 A-landsleiki fyrir Danmörku, ræddi um Lössl á Viaplay á dögunum og sagði hann þar að markvörðurinn væri að spila stórkostlega.

„Ég er að horfa á markvörð sem er í sínu besta formi," segir Frimann.

Lössl hefur hjálpað Midtjylland að komast á toppinn í dönsku úrvalsdeildinni. „Hann virkar rólegur og það sést að hann er á góðum stað."

„Ef þú horfir í síðustu leiki, þá er hann besti markvörður deildarinnar. Hann er að spila best."

Það eru ekki sérlega góð tíðindi fyrir íslenska landsliðsmarkvörðinn Elías Rafn Ólafsson að Lössl sé að spila svona vel. Elías er núna á láni hjá Mafra í portúgölsku B-deildinni en það hefur verið í umræðunni að hann muni taka stöðu aðalmarkvarðar hjá Midtjylland á næstu leiktíð.

„Planið er að ég komi aftur, eftir tímabil eins og er, og spili þar. Það er það sem ég hef fengið að vita og það er bara planið með mig. Það er spennandi," sagði Elías við Fótbolta.net í október síðastliðnum. Þá hafði honum verið tjáð að hann myndi taka stöðu Lössl á næsta tímabili.

En á meðan Lössl er að spila svona gríðarlega vel, þá er kannski erfitt að taka hann úr liðinu. Og þá líklega sérstaklega ef Midtjylland endar sem danskur meistari. En þetta verður að koma í ljós.
Athugasemdir
banner
banner