Man Utd eflir leit sína að liðsstyrk - David ofarlega á blaði - Ítölsk félög vilja Greenwood - Liverpool vill Olise
banner
   fös 17. maí 2024 12:13
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Kom Blikum til bjargar og skrifar undir sinn fyrsta samning við félagið
Aníta Dögg.
Aníta Dögg.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ása líka búin að skrifa undir samning.
Ása líka búin að skrifa undir samning.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Breiðablik tilkynnti í dag að markvörðurinn Aníta Dögg Guðmundsdóttir væri búin að skrifa undir samning við félagið. Samningurinn gildir út tímabilið. Þetta er samkvæmt KSÍ fyrsti samningurinn sem Aníta gerir við Breiðablik.

Aníta er fædd árið 2000 og er fyrrum unglingalandsliðsmarkvörður. Hún er uppalin í FH, fór til Víkings fyrir tímabilið 2021 og svo til Breiðabliks fyrir tímabilið 2022.

Breiðablik var í markvarðakrísu í byrjun móts eftir að Telma Ívarsdóttir meiddist gegn Tindastóli í lok síðasta mánaðar. Anítu var flogið heim frá Bandaríkjunum á leikdegi þegar liðið mætti FH 3. maí. Aníta hefur staðið vaktina í markinu í síðustu þremur leikjum og einungis fengið á sig eitt mark.

Fyrir tímabilið í ár hafði Aníta spilað einn leik fyrir Breiðablik. Það var leikur gegn Fram í Mjólkurbikarnum í fyrra.

Í gær tilkynnti Breiðablik að U19 landsliðskonan Hrafnhildur Ása Halldórsdóttir hefði skrifað undir nýjan samning við félagið. Hrafnhildur er fædd árið 2006 og hefur komið við sögu í frystu fimm leikjum tímabilsins. Hún var í byrjunarliðinu gegn Tindastóli og kom inn á í hinum fjórum leikjunum.

„Ása eins og hún er jafnan kölluð hefur leikið 32 unglingalandsleiki og skorað í þeim 9 mörk," segir í tilkynningu Breiðabliks.

Breiðablik er sem stendur í efsta sæti Bestu deildarinnar með fullt hús stiga líkt og Valur. Næsti leikur Blika er gegn Stjörnunni í Mjólkurbikarnum á sunnudagskvöld.
Athugasemdir
banner
banner