Man Utd ætlar að reka Ten Hag - Hver tekur við? - Tuchel hefur áhuga á starfinu
banner
   mið 10. júní 2009 07:10
Magnús Már Einarsson
1.deild: Hvað er að frétta af Fjarðabyggð?
Mynd: Jón Guðmundsson
Mynd: Austurglugginn - Gunnar
Mynd: Fótbolti.net - Magnús Már Einarsson
Mynd: Agl.is/Gunnar
Mynd: Austurglugginn/Gunnar
Mynd: Austurglugginn/Gunnar
Þá er komið að liðnum "Hvað er að frétta?" hér á Fótbolti.net en þar kíkjum við á stemninguna hjá liðum í fyrstu, annarri og þriðju deild.

Að þessu sinni er kíkt á stemninguna hjá Fjarðabyggð í 1.deildinni en Elvar Jónsson stjórnarmaður hjá félaginu svaraði nokkrum spurningum.

Hvernig er stemningin hjá Fjarðabyggð þessa dagana?
Stemningin er góð. Liðið hefur verið að rétta sinn hlut eftir erfiða byrjun og fengið sjö stig úr síðustu þrem leikjum. Það er góð stemning í leikmannahópnum en ekki síður meðal stuðningsmannanna og var stemningin á leiknum við ÍR sú besta í langan tíma. Félagið er alltaf að þróast í rétta átt og fleiri aðilar koma að félaginu en áður t.d. hefur samstarfið við stjórnendur yngri flokka aukist verulega og eru foreldrafélög mjög virk t.d. á heimaleikjum meistaraflokks. Í ár erum við einnig með 2.flokk ásamt Leikni og Hugin. Samstarfið við Leikni, sem er hitt félagið hér í Fjarðabyggð með meistaraflokk, hefur líka aukist mikið og er orðið mun betra. Félögin eru með sameiginlegan meistaraflokk kvenna annað árið í röð. Heilt yfir er Knattspyrnufélag Fjarðabyggðar (KFF) að eflast mjög sem félag og öll umgjörð að verða betri og samstaða um lið félagsins að aukast mjög.

Ertu sáttur við byrjun ykkar í sumar?
Ég held að staðan eftir þessa fyrstu fimm leiki sé mjög viðunandi þótt liðið eins og önnur fari í alla leiki til þess að vinna. Okkar lið er að mestu byggt upp á heimamönnum þar sem 80% leikmanna eru uppaldir í þeim félögum sem að KFF standa. Þeir sem ekki eru uppaldir búa flestir hér í Fjrðabyggð. Dæmi um þetta er að eini erlendi leikmaðurinn í okkar hóp – markmaðurinn Rajkó. Rajkó hefur búið hér í um 10 ár og spilað með KFF frá stofnun félagsins árið 2001.

Ykkur var spáð 11.sæti í sumar, hvað finnst þér um þá spá?
Við tökum ekki mikið mark á svona spám en ef þessi spá rætist þá er það mjög slæmt. Hún er samt í sjálfum sér eðlileg þar sem við tókum þátt í B-deild Lengjubikarsins til þess að spara ferðaskostnað enda hamlar sá kostnaður okkar félagi verulega enda um sex sinnum meiri en hjá flestum öðrum félögum í okkar deild. Við komumst reyndar í úrslitaleik þessarar deildar en hún er auðvitað mikið slakari en A-deildin enda aðeins lið úr annari og þriðju deild í B-deildinni fyrir utan okkur. Okkur var spáð mjög góðu gengi í fyrra eða fjórða sæti ef ég man rétt. Við enduðum í níunda sæti. Eigum við ekki að segja að þetta snúist við núna – við verðum mun ofar en okkur er spáð en annars er það bara næsti leikur og allir leikir í þessari deild eru mjög erfiðir.

Er liðið mikið breytt frá því í fyrra?
Já ætli hafi ekki farið eitthvað um 10 leikmenn en aðeins 4-5 komið í staðinn. Af þessum 10 voru kannski ekki nema 3-4 sem breyta miklu fyrir okkur. Við misstum okkar markahæsta mann, Sveinbjörn, til Grindavíkur og eins var mjög slæmt að missa Jóhann Inga til HK enda mikill og góður félagsmaður fyrir utan að vera góður leikmaður og hafa tekið mikinn þátt í uppbyggingu KFF liðsins. Með tilkomu 2.flokks þá höfum við einnig tekið yngri menn inn í okkar hóp og erum í raun á pari hvað leikmannamál varðar frá í fyrra en hvað reynslu varðar þá var hópurinn breiðari í fyrra en kannski ferskari núna.

Hver er helsti styrkleiki ykkar?
Ég held að það sé uppbygging liðsins þ.e. að flestir leikmenn koma af svæðinu eða hafa búið hér lengi. Ég hef lengi starfað í þessu félagi og mér finnst samstaðan núna vera ein sú besta sem verið hefur. Samstaða allra sem að félaginu koma er mjög góð í ár.

Hver eru markmið ykkar fyrir sumarið?
Veit ekki til þess að nein markmið um sæti hafi verið sett en eins og alltaf er það að vinna næsta leik aðalmarkmiðið. Þó góður árangur sé aðalmarkmið þessa félags þá ber líka að huga að öðrum markmiðum eins og t.d. að skila af okkur góðum knattspyrnumönnum. Við eigum nú nokkra lykilmenn í úrvalsdeildarliðum í dag sem við erum mjög stoltir af og eins koma nokkrir atvinnumenn héðan úr Fjarðabyggð. Þar erum við kannski hvað stoltastir af Eggerti Gunnþór Jónssyni í Hearts í Skotlandi enda kemur hann mjög ungur upp í meistaraflokk KFF. Eins má nefna að Stefán Gíslason og Ívar Íngimarsson eru uppaldir hér í sveitarfélaginu þó það sé fyrir tíma KFF þá er það eitt af markmiðum okkar að skila af okkur fleiri svona afburða leikmönnum. Eins er líka markið okkar að efla félagið enn frekar og bæta alla umgjörð sem þá skilar sér vonandi í betri árangri.

Er stuðningurinn við liðið góður?
Hann er alltaf að aukast og eins og ég sagði áður þá var stuðningurinn á síðasta heimaleik sá besti sem hér hefur verið lengi. Aðstaða fyrir áhorfendur er að batna og er það von okkar að þá fjölgi á leikjum hjá okkur. Eins hafa flest fyrirtæki á svæðinu stutt okkur með góður styrkjum en vegna mikils ferðakostnaðar þá veitir ekki af mun meiri fjárhagsstuðningi í framtíðinni. Við höldum úti þremur liðum á landsvísu þar sem flest ferðalög eru þannig að það þarf að fljúga. Stuðningur sveitarfélagsins hefur líka verið mjög góður enda er þetta félag mikil auglýsing fyrir sveitarfélagið og svæðið í heild. Ég held að það sé mjög vanmetið hvað öflugt afreksstarf í íþróttum skilar þeim svæðum sem um ræðir hverju sinni. Ég held að þetta sé besta markaðssetning sem til er fyrir sveitarfélög.

Hvað hefur komið þér mest á óvart í byrjun 1.deildarinnar?
Gengi Skagamanna hingað til. Ég á þó von á því að þeir komi til og það vona flestir austfirðingar enda hefur Skaginn verið tákn landsbyggðarinnar um langan tíma og margir stuðningsmenn þeirra hér eystra. Held að það hafi verið svo lítiðið furðulegt fyrir margan Skagamanninn hér eystra þegar KFF rúlaði þeim upp á dögunum. Annars kemur ekki mikið á óvart í þessari deild enda lítið hægt að spá í þetta þar sem aðeins fimm leikir eru búnir.

Hvaða lið telur þú að sé sigurstranglegast í 1.deildinni í sumar?
HK, Víkingur og ÍA

Eitthvað að lokum?
Ég vil bara þakka fotbolta.net fyrir frábæra umfjöllun um íslenska boltann. Það sem gleður okkur mest hvað þá umfjöllun varðar er hversu mikil hún eru um neðri deildir og eins sérstaklega góð um 1.deildina. Þetta er ekki bara að byrja í ár heldur hefur þessi síða verið með yfirburða umfjöllun um íslenska boltann í mörg ár og fundum við sérstaklega fyrir þessu þegar við vorum í neðstu deildum.

Eldra úr liðnum "Hvað er að frétta?"

1.deild:
ÍR (29.maí)
KA (15.maí)
Leiknir R. (29.maí)
Víkingur Ólafsvík (26.mars)
Þór (15.maí)

2.deild:
BÍ/Bolungarvík (29.apríl)
Hamar (21.apríl)
ÍH/HV (17.apríl)
Reynir Sandgerði (3.apríl)

3.deild:
Árborg (14.maí)
Berserkir (1.maí)
Draupnir (25.mars)
Einherji (16.apríl)
Huginn (29.maí)
KFK (20.maí)
KFR (31.mars)
KFS (30.apríl)
Léttir (8.maí)
Athugasemdir
banner
banner