Liverpool ætlar að fá þrjá - Chelsea vill Rogers - Ancelotti að taka við Brasilíu
   mið 30. apríl 2025 22:20
Ívan Guðjón Baldursson
Dumfries og Mkhitaryan: Þetta var klikkaður leikur
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Vængbakvörðurinn öflugi Denzel Dumfries var valinn sem besti leikmaður vallarins í 3-3 jafntefli Inter á útivelli gegn Barcelona í fyrri leik liðanna í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu.

Leikurinn fór fram í Barcelona í kvöld og var Dumfries aðalmaðurinn í liði gestanna, þar sem hann lagði fyrsta markið upp og skoraði svo hin tvö fyrir sína menn.

„Þetta var klikkaður leikur, bæði lið börðust til að sigra. Ég er mjög ánægður með þessi mörk en öll einbeitingin mín verður að fara í næsta leik og svo þurfum við að hugsa um seinni leikinn gegn Barcelona," sagði Dumfries við TNT Sports að leikslokum.

„Ég er mjög stoltur af þessari frammistöðu í dag. Við verðum að halda áfram að leggja mikla vinnu á okkur."

Henrikh Mkhitaryan, fyrrum leikmaður Arsenal og Manchester United, svaraði einnig spurningum fyrir framan myndavélar TNT Sports.

„Þetta var klikkaður leikur. Það hefur örugglega verið frábært að horfa á þennan leik en ekki að spila hann því þetta var mjög erfitt. Við gerðum okkar besta og hefðum getað gert betur. Við vorum komnir með tveggja marka forystu en Barca náði að setja ótrúlega mikla pressu á okkur," sagði Mkhitaryan.

„Þeir voru mjög góðir á boltanum, þetta var virkilega erfiður leikur. Því miður tókst okkur ekki að halda forystunni þegar við komumst svo aftur yfir í 3-2."

Mkhitaryan kom boltanum í netið á 75. mínútu og hélt hann væri að skora sigurmarkið fyrir Inter, en svo var ekki. Táin hans var fyrir innan aftasta varnarmann Börsunga og því dæmd rangstaða eftir snögga athugun í VAR herberginu.

„Ég er mjög svekktur með þetta mark. Þetta voru kannski tveir eða þrír sentimetrar, en svona er fótboltinn. Ég var alltof ákafur í að skora og það er kannski ástæðan fyrir því að ég var kominn aðeins fyrir innan, ég fór of hratt af stað. Vonandi skora ég í seinni leiknum."

Mkhitaryan býst við gríðarlega erfiðum leik á heimavelli í næstu viku, sérstaklega í ljósi þess að Lautaro Martínez fór meiddur af velli í Barcelona í kvöld.

„Það er ekki auðvelt að spila við þetta Barcelona lið, þetta er mjög ungt lið og með gríðarlega mikil gæði. Þeir eru frábærir á boltanum. Þetta verður erfiður seinni leikur sérstaklega án fyrirliðans okkar Lautaro Martínez. Hann er mikill leiðtogi fyrir okkur og við þurfum að gera okkar besta til að fylla í skarðið."
Athugasemdir
banner
banner
banner