Liverpool ætlar að fá þrjá - Chelsea vill Rogers - Ancelotti að taka við Brasilíu
   þri 29. apríl 2025 20:56
Brynjar Ingi Erluson
Meistaradeildin: PSG fer með forystu til Frakklands
Ousmane Dembele skoraði markið og PSG með forystu í einvíginu
Ousmane Dembele skoraði markið og PSG með forystu í einvíginu
Mynd: EPA
Gianluigi Donnarumma átti nokkrar góðar vörslur
Gianluigi Donnarumma átti nokkrar góðar vörslur
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Arsenal 0 - 1 Paris Saint Germain
0-1 Ousmane Dembele ('4 )

Franska stórveldið Paris Saint-Germain vann Arsenal, 1-0, í fyrri leik liðanna í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu á Emirates-leikvanginum í Lundúnum í kvöld.

Það tók gestina aðeins tæpar rúmar þrjár mínútur að skora sigurmarkið en það gerði vængmaðurinn léttleikandi Ousmane Dembele með frábæru skoti við vítateigslínuna.

Nuno Mendes kom frábærum bolta á miðsvæðið á Dembele sem keyrði fram völlinn. Hann fann síðan Khvicha Kvaratskhelia vinstra megin sem kom boltanum aftur á Dembele sem skoraði með hnitmiðuðu skoti alveg út við stöng.

Jurrien Timber, sem spilaði í hægri bakverðinum hjá Arsenal, var í miklu basli með Kvaratskhelia í leiknum.

Eftir hálftímaleik átti Desire Doue ágætis tilraun sem David Raya varði áður en Fabian Ruiz setti boltann í stöng, en markið hefði aldrei talið þar sem búið var að flauta.

Arsenal-menn fóru að finna taktinn betur þegar leið á hálfleikinn og ógnuðu þeir í restina. Myles Lewis-Skelly átti frábæra sendingu inn á Gabriel Martinelli undir lok hálfleiksins en Gianluigi Donnarumnma varði frábærlega.

Heimamenn byrjuðu seinni hálfleikinn frábærlega. Mikel Merino kom boltanum í netið eftir fyrirgjöf Declan Rice en markið var réttilega dæmt af þar sem Merino var rangstæður í aðdraganda marksins.

Meðbyrinn var áfram með Arsenal og kom Leandro Trossard sér í gott færi en aftur varði Donnarumma vel.

Arsenal-menn voru að ná að halda mikið í boltann síðustu tuttugu mínúturnar og endalaust að reyna finna opnanir, sem gekk heldur erfiðlega. PSG-menn voru á meðan sáttir með að leyfa Arsenal að vera með boltann.

Fimm mínútum fyrir leikslok slapp varamaðurinn Bradley Barcola óvænt í gegn, einn á móti Raya, en setti boltann framhjá þegar hann gat komið PSG í geggjaða stöðu fyrir seinni leikinn.

Aðeins tæpri mínútu síðar var aftur hætta inn á teig Arsenal þegar Goncalo Ramos fékk boltann en skot hans hafnaði í þverslá. Taugatrekkjandi lokamínútur og Arsenal að bjóða hættunni heim.

PSG tókst ekki að taka með sér stærra veganesti og Arsenal-liðið eflaust ánægt að sleppa með eins marks tap eftir lokamínútur leiksins.

Liðin mætast á Parc des Princes, heimavelli PSG, í síðari leiknum en hann fer fram næsta miðvikudag.
Athugasemdir
banner