YouTube stjarnan, boxarinn og athafnamaðurinn 'KSI' Olajide segist vera í viðræðum við franska fótboltamanninn Paul Pogba sem er samningslaus eftir langan tíma frá keppni vegna leikbanns.
KSI vill fá Pogba til að keppa í fótboltadeildinni 'Baller League' þar sem spilaður er sex manna innanhússfótbolti, með einn markvörð og fimm útispilandi leikmenn.
Reglurnar eru svipaðar og í Futsal og var Baller League deildin stofnuð í Þýskalandi í fyrra, með hjálp frá Mats Hummels og Lukas Podolski.
Þessi hugmynd hefur vakið mikinn áhuga víða um heim og er Baller League núna einnig komið til Bandaríkjanna og Bretlands. Í Bandaríkjunum er IShowSpeed formaður deildarinnar á meðan KSI er formaðurinn á Englandi.
KSI var að lýsa leik í deildinni þegar hann var spurður í beinni útsendingu hvort eitthvað stórt nafn myndi taka þátt í keppninni. Þar viðurkenndi KSI að viðræður væru í gangi við Pogba, sem er þó einnig í viðræðum við atvinnumannafélög víða um heim og talið ólíklegt að hann muni kjósa Baller League framyfir hefðbundinn ellefu manna keppnisfótbolta.
Pogba hefur meðal annars unnið HM með Frakklandi, Serie A með Juventus og Evrópudeildina með Manchester United á ferli sínum sem atvinnumaður í fótbolta.
Athugasemdir