Það vakti athygli í gær að Helgi Guðjónsson tók vítaspyrnu Víkings í leiknum gegn Val í gær. Lokatölur urðu 1-1 en Helgi kom Víkingi yfir í fyrri hálfleik með marki úr vítaspyrnu. Flestir höfðu búist við því að Gylfi Þór Sigurðsson myndi stíga á punktinn en svo varð ekki.
Sölvi Geir Ottesen, þjálfari Víkings, var spurður út í föstu leikatriðin og þá staðreynd að Helgi tók vítaspyrnuna í viðtali við Fótbolta.net eftir leikinn.
Sölvi Geir Ottesen, þjálfari Víkings, var spurður út í föstu leikatriðin og þá staðreynd að Helgi tók vítaspyrnuna í viðtali við Fótbolta.net eftir leikinn.
Lestu um leikinn: Valur 1 - 1 Víkingur R.
„Helgi hefur ekki klúðrað vítaspyrnu fyrir Víking ennþá. Þannig að svo lengi sem það gerist þá sé ég ekki ástæðu til þess að breyta um vítaskyttu. Síðan fer það bara eftir hvar á vellinum aukaspyrnurnar eru, hvort við viljum 'in swing' eða 'out swing' aukaspyrnur, hvort hentar betur. Með vinstri fótar mann eins og Helga þá tekur hann þær spyrnur ef það hentar betur," sagði Sölvi í gær.
Samkvæmt Transfermarkt var þetta fimmta vítaspyrnan sem Helgi skorar úr fyrir Víking í keppnisleik.
Helgi ræddi sjálfur við mbl.is eftir leikinn.
„Ég spurði Gylfa hvort hann vildi taka vítið en hann sagði mér að taka það. Gylfi er toppmaður og öruggur á punktinum. Ég fékk að taka það í kvöld og við sjáum hver tekur það næst," sagði Helgi við mbl.is.
Í Innkastinu þar sem 4. umferðin í Bestu deildinni var gerð upp benti Tómas Þór Þórðarson á að Gylfi hefði klikkað tveimur vítaspyrnum í Valstreyjunni á síðasta tímabili.
Athugasemdir