Liverpool ætlar að fá þrjá - Chelsea vill Rogers - Ancelotti að taka við Brasilíu
   þri 29. apríl 2025 21:36
Brynjar Ingi Erluson
„Getum unnið hvaða lið sem er“
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Spænski markvörðurinn David Raya var vonsvikinn með 1-0 tap Arsenal gegn Paris Saint-Germain í Meistaradeildinni í kvöld, en er viss um að liðið geti unnið í Frakklandi.

PSG fer með eins marks forystu til Frakklands í undanúrslitaeinvíginu.

Ousmane Dembele skoraði eina mark leiksins en Frakkarnir eru eflaust ósáttir að hafa ekki farið með meira veganesti í seinni leikinn eftir nokkur klúðruð dauðafæri í restina.

Raya segir að Arsenal hefði vel getað unnið leikinn í kvöld.

„Þeir byrjuðu leikinn hratt með marki og voru með öll völd fyrstu 15-20 mínúturnar, en eftir það tókum við völdin, sköpuðum færi, en Donnarumma átti nokkrar góðar vörslur. Það er bara hálfleikur og við tökum það jákvæða. Þetta er topplið, en maður verður samt að hrósa leikmönnunum fyrir framlagið. Við gátum unnið þennan leik.“

„Við vitum að þeir vilja halda í boltann og eru góðir í því. Þeir fengu þetta færi sem endaði í netinu. Svona er fótboltinn, en við fengum líka færi til að skora en nýttum ekki.“

„Ég hef ekki séð markið sem var dæmt af en við þurfum það til að koma okkur í gang. Við sýndum frá 25. mínútu í fyrri hálfleiknum að við getum unnið hvaða lið sem er. Við höfum sýnt það að við getum líka unnið útileiki þannig við förum með það í huga þegar við mætum PSG í næstu viku.“


Thomas Partey tók út leikbann og var ekki með liðinu í kvöld, en Raya talaði um fjarveru hans, seinni leikinn í París og mikilvæga vörslu hans í leiknum.

„Við vitum hversu mikilvægur Thomas Partey er fyrir liðið en sem betur fer erum við með góða breidd á miðsvæðinu og allir geta stigið upp. Declan var mjög góður í 'sexunni', góður á boltann og í raun voru allir mjög góðir.“

„Við ætlum að reyna nálgast seinni leikinn á sama hátt. Við spiluðum vel og náðum aðeins að særa þá og skapa mörg færi.“

„Það er ástæðan fyrir að ég er þarna, til að hjálpa liðinu og sem betur fer tókst mér að verja og ég er ánægður með það. Í næstu viku munum við keyra á þetta,“
sagði Raya.
Athugasemdir
banner
banner