Mbeumo og Wissa eiga eitt ár eftir af samningi
Thomas Frank þjálfari Brentford viðurkennir að félagið gæti selt stjörnuleikmann sinn Bryan Mbeumo í sumar ef nægilega gott tilboð berst.
Mbeumo er 25 ára gamall sóknarleikmaður sem leikur sem hægri kantmaður að upplagi. Hann er góður á boltanum og með góðan vinstri fót sem hefur gert honum kleift að skora 18 mörk og gefa 6 stoðsendingar í 33 úrvalsdeildarleikjum á tímabilinu.
Mbeumo kom að 16 mörkum í 25 leikjum á síðustu leiktíð og hefur vakið áhuga stórliða á borð við Arsenal, Liverpool og Newcastle. Hann á aðeins eitt ár eftir af samningi sínum við Brentford og er ekki talinn líklegur til að framlengja við félagið. Ef hann verður ekki seldur í sumar er líklegt að hann verði seldur í janúar eða yfirgefi félagið á frjálsri sölu á næsta ári.
„Ég vil halda mínum bestu leikmönnum að eilífu en það er ekki alltaf hægt. Ég veit að Bryan líður mjög vel hérna, hann er að njóta sín í botn, en ég veit ekki hvað getur gerst í framtíðinni. Það eru til stærri félög sem geta boðið betri tækifæri," segir Frank.
„Auðvitað munum við selja hann fyrir rétt verð, en hann verður ekki ódýr. Félagið er opið fyrir því að selja hann, en ef hann verður ekki seldur þá er ég sannfærður um að Bryan muni líða vel með að spila áfram fótbolta hérna með okkur."
Mbeumo er ekki eini leikmaðurinn sem hefur verið orðaður við stærri félög. Samherjar hans í framlínunni, þeir Yoane Wissa og Kevin Schade, eru einnig skotmörk fyrir ýmis stórlið. Wissa á einnig aðeins eitt ár eftir af sínum samningi við félagið, en Schade er samningsbundinn Brentford næstu þrjú árin.
Borussia Dortmund hefur sýnt Schade mikinn áhuga auk fleiri þýskra liða og þá er Bayer Leverkusen hrifið af Mark Flekken markverði liðsins. Hákon Rafn Valdimarsson er varamarkvörður Brentford.
„Ef við seljum einhverja leikmenn í sumar þá býst ég ekki við því að þeir verði margir. Þetta er frábær hópur sem við erum með hérna þar sem leikmenn hafa spilað saman í mörg ár og þekkjast vel. Ég býst við að byrja næsta tímabil með mjög svipaðan leikmannahóp og við erum með í dag."
Athugasemdir