Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
Brynjar Björn útskýrir útlendingafjöldann
Ómar Ingi: Legghlífunum hans var stolið
Vill breytingar eftir tæklingu Grétars - „Getur eyðilagt ferla hjá mönnum"
Sætasti strákurinn á ballinu - „Hann er 39 ára í líkama sextugs manns"
Bræður eigast við í bikarnum - Síðasta tækifærið að mæta Birki
Haraldur Freyr: Leikurinn spilast eins og við vildum
Höskuldur: Fannst þeir ofan á í grunnatriðum leiksins
Sami Kamel: Þurftum bara að beisla þessa jákvæðu orku
Dóri Árna: Ótrúlega andlaust og ekki líkt liðinu sem ég þekki
Hallgrímur Jónasson: Við stöndum saman sem lið
Árni Freyr: Mér fannst þetta vera víti
Breki Baldurs: Ég er mjög hrifinn af þessu kerfi
Arnar Gunnlaugs: Ótrúlegasta mark sem ég hef séð á þessum velli
Sveinn Þór: Ég held að við höfum aðeins sjokkerað þá pínulítið
Baldvin Borgars: Virkilega sáttur með frammistöðuna hjá mínum mönnum
Rúnar Kristins: Þeir lögðu mikla vinnu í þetta og veittu okkur mjög erfiðan leik
Jökull: Pirrandi leikur
Hetja HK kíkir ekkert niður í bæ: Ekkert mikið að gera þar miðað við í London
Hrannar Bogi eftir hetjulega frammistöðu Augnabliks: Við nálgumst leiki alltaf alveg eins
Fékk afmælisgjöf fyrir leikinn: Ég fékk Þróttaratrefil og nokkrar Stellur
banner
   fös 22. mars 2024 17:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
„Mjög þakklát fyrir allan áhugann sem Þróttur sýndi mér"
Unglingalandsliðskonan Sigríður Theódóra tekur næsta skref á ferlinum
Sigríður Theódóra Guðmundsdóttir.
Sigríður Theódóra Guðmundsdóttir.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Samdi við Þrótt.
Samdi við Þrótt.
Mynd: Þróttur R.
Erfitt að kveðja Val.
Erfitt að kveðja Val.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Í leik með Hlíðarendafélaginu.
Í leik með Hlíðarendafélaginu.
Mynd: Fótbolti.net - Jónína Guðjörg Guðbjartsdóttir
Spennt fyrir komandi tímum í Laugardalnum.
Spennt fyrir komandi tímum í Laugardalnum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mæðgurnar.
Mæðgurnar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Tilfinningin er ótrúlega góð. Ég er mjög spennt fyrir komandi tímum í Laugardalnum og mér líst ótrúlega vel á þetta," segir Sigríður Theódóra Guðmundsdóttir, nýr leikmaður Þróttar, í samtali við Fótbolta.net.

„Ég er ótrúlega spennt, eins og ég segi, en svo er líka erfitt að kveðja uppeldisfélagið mitt. Valur hefur verið mitt annað heimili frá því ég man eftir mér og það er erfitt að kveðja alla þar en á sama tíma er ég gríðarlega spennt fyrir öllu sem er í gangi í Laugardalnum," segir þessi efnilegi leikmaður.

Var á leiðinni annað á láni
Sigríður er gríðarlega efnileg og er lykilleikmaður í afar öflugu U19 ára landsliði Íslands, þar sem hún á 19 landsleiki að baki. Hún segir að aðdragandinn að skiptunum hafi ekki verið langur.

„Aðdragandinn var frekar stuttur. Ég var á leiðinni á láni í annað félag en það gekk ekki alveg upp og þá frétti ég af þessu. Ég varð strax mjög spennt fyrir því," segir hún.

„Mér leist strax ótrúlega vel á Þrótt. Þetta er ótrúlega góður hópur og gott að koma inn í þetta umhverfi. Þjálfararnir eru geggjaðir og allt í kringum þetta mjög gott."

„Stelpurnar tóku mjög vel á móti mér og þjálfararnir líka, allir í kringum liðið. Ég finn fyrir mjög góðum stuðningi í Laugardalnum. Þróttur er með frábæran stuðningsmannahóp og það er búið að taka vel á móti mér."

Óli Kristjáns algjör meistari
Þjálfari Þróttar er Ólafur Kristjánsson en hann tók við liðinu í vetur. Ólafur hefur á sínum þjálfaraferli stýrt Fram, Breiðabliki, Nordsjælland, Randers, Esbjerg og FH. Hann hefur aldrei áður þjálfað kvennalið en er núna að gera það í fyrsta sinn. Sigríði líst vel á nýja þjálfarann sinn.

„Hann er algjör meistari og ég er mjög spennt að vinna með honum," segir hún.

„Ég held að það sé ótrúlega gott fyrir deildina að fá hann inn. Hann er algjört 'legend' og mér líst ótrúlega vel á hann. Ég held að hann sé búinn að koma með góða hluti inn í Þrótt."

„Hann lætur mann pæla í hlutum sem maður hefur ekki endilega pælt mikið í. Ég vona að hann geti hjálpað mér mikið og ég held það svo sannarlega."

Aldrei dauð stund með Emilíu
Sigríður, sem er uppalin hjá Val, var hjá Selfossi á láni í fyrra en kom einnig við sögu í tveimur leikjum í úrslitakeppni efri hluta Bestu deildar með Val. Hún segir að það hafi verið góð reynsla að vera á Selfossi þrátt fyrir að liðinu hafi gengið illa.

„Það var mjög fín reynsla. Þetta var auðvitað mjög krefjandi þar sem tímabilið var erfitt hjá okkur. Þetta var öðruvísi reynsla en á sama tíma góð reynsla og lærdómsrík. Ég kynntist góðu fólki þarna og maður reynir alltaf að taka það jákvæða úr öllu. Það er alltaf hægt að finna eitthvað jákvætt. Og maður reynir að taka það jákvæða með sér í næsta ferðalag," segir Sigríður.

Emelía Óskarsdóttir, sem er liðsfélagi Sigríðar í U19 landsliðinu, var einnig á láni hjá Selfossi síðasta sumar en hún talaði um það í viðtali við Fótbolta.net í fyrra hvað bílferðirnar með Sigríði væru skemmtilegar. Emelía var á þeim tíma ekki með bílpróf og fékk alltaf far með Sigríði yfir á Selfoss.

„Það er alltaf sumar á Selfossi og það var mjög fínt að vera þar. Það var mjög gaman að keyra á milli með Emilíu. Það var ekki dauð stund hjá okkur," segir Sigríður.

„Ég held að enginn myndi vilja missa af þessum bílferðum. Þetta var mjög mikið stuð. Það var mjög gott að hafa hana með mér í þessu og við vorum góðar saman."

Verður skrítið að fara í annan klefa á Hlíðarenda
Orri Rafn Sigurðarson, fyrrum fréttamaður Fótbolta.net, sagði frá því á dögunum að Þróttur hefði borgað 850 þúsund krónur til þess að fá Sigríði frá Val. „Þetta er alvöru upphæð sem við sjáum ekki oft á milli íslenskra félagsliða í kvennaboltanum," skrifaði Orri á samfélagsmiðla.

Þróttur lagði mikið kapp í að fá Sigríði en fylgir einhver pressa þessum verðmiða?

„Auðvitað, en ég veit svo sem ekkert hvað er rétt í þessu og hvað ekki. Ég er mjög þakklát fyrir allan áhugann sem Þróttur sýndi mér. Ég er mjög spennt fyrir þessu öllu og það er undir mér komið að standa mig vel," segir hún.

Sigríður, sem getur leyst margar stöður en líður best á miðjunni, var ekki í sérlega stór hlutverki hjá Val en mun væntanlega fá stærra hlutverk í Laugardalnum.

„Auðvitað vil ég alltaf spila. Þess vegna er maður í fótbolta. Á sama tíma fékk ég mjög dýrmæta og góða reynslu hjá Val. Ég fékk að æfa með frábærum leikmönnum. Það er valinn leikmaður í hverri stöðu og að fá að læra af svona leikmönnum er ekki sjálfgefið. Ég er ótrúlega þakklát fyrir það. Svo fékk ég góða þjálfun. Ég er þakklát fyrir allt og óska þeim öllum góðs gengis."

„Ég held að það verði mjög skrítið að fara í annan klefa á Hlíðarenda. Ég á örugglega eftir að fara í vitlausan klefa. En það verður bara gaman að mæta Val," sagði hún en hver eru markmiðin með Þrótti?

„Ég ætla að byrja á því að aðlagast og koma mér inn í hlutina. Það hefur gengið vel á síðustu tveimur vikum. Svo ætla ég að byggja ofan á þau markmið. Ég stefni á að ná langt með Þrótti."

Alveg til í að prófa að eiga heima á Bessastöðum
Að lokum var Sigríður spurð út í móður sína, fréttakonuna vinsælu Jóhönnu Vigdísi Hjaltadóttur á RÚV. Að undanförnu hefur verið skorað á Jóhönnu Vigdísi að fara í forsetaframboð.

„Það eru mjög margir búnir að pressa á hana en ég veit það ekki, ég væri alveg til í að prófa að eiga heima á Bessastöðum," sagði Sigríður og hló. „Nei, ég veit það ekki. Hún gerir það sem hún vil gera."

Hægt er horfa á viðtalið í heild sinni í spilaranum hér fyrir ofan.
Athugasemdir
banner
banner
banner