Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   mið 04. júlí 2018 09:27
Magnús Már Einarsson
Viðtal
Hannes: Besti möguleikinn á að spila í Meistaradeildinni
Hannes Þór Halldórsson.
Hannes Þór Halldórsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hannes gæti spilað sinn fyrsta leik með Qarabag eftir tvær vikur.
Hannes gæti spilað sinn fyrsta leik með Qarabag eftir tvær vikur.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Þetta er auðvitað framandi land og fyrstu viðbrögð voru að þetta væri ekki mjög líklegt. Eftir því sem ég kynnti mer félagið og allan pakkann betur þá leist mér betur á þetta og varð sannfærður um að þetta væri rétta skrefið," sagði íslenski landsliðsmarkvörðurinn Hannes Þór Halldórsson við Fótbolta.net í dag en hann skrifaði í gær undir tveggja ára samning hjá Qarabag í Aserbaídsjan.

Hannes hefur undanfarin tvö ár leikið með Randers í Danmörku en frammistaða hans með íslenska landsliðinu á HM vakti athygli hjá mörgum félögum.

„Það voru fleiri lið inni í myndinni. Það þarf að taka ákvarðanir í þessu. Sumir eru lengi að ákveða sig. Það eru alls konar símtöl og maður veit ekki hvað er í hendi í þessum bransa. Þetta stóð til boða og mér leist vel á þetta allt aman. Það var tekin ákvörðun um stökkva á þetta."

60-70 þúsund áhorfendur á Evrópuleikjum
Hannes kynnti sér lið Qarabag vel áður en hann tók ákvörðun um að stökkva á tæifærið.

„Ég er búinn að tala við Spánverja og Pólverja sem spila með liðinu og hef fengið allar upplýsingar sem ég bað um. Þetta er algjör toppklúbbur. Allar aðstæður eru upp á 10 og þetta er mjög fagmannlegt allt saman. Ég held að aðstæðurnar verði á öðru leveli en ég hef kynnst áður því það er engu til sparað þar."

„Liðið er búið að vinna deildina fimm sinnum í röð en það spilar á tveimur mismunandi völlum. Í deildinni er spilað á einum sem passar við áhorfendafjöldann þar en í Evrópukeppni er spilað á þjóðarleikvanginum þar sem mæta 60-70 þúsund manns. Félagið þrífst á því að spila í Evrópukeppni."


Fjölskyldan til í ævintýri
Hannes mun flytja frá Danmerkur til Aserbaídsjan ásamt fjölskyldu sinni. Samningurinn er til tveggja ára og því verður fjölskyldan að minnsta kosti í tvö ár í Baku í Aserbaídsjan.

„Þau eru bara til í þetta. Ég og konan eru búin að ræða þetta mikið og hún er til í ævintýri. Við munum kveðja Skandinavíu með söknuði því við höfðum það fínt þar. Okkur leið vel í Randers og þetta var erfð ákvörðun en eftir að hafa skoðað þetta vel þá kom í ljós að Baku er mjög vestræn og flott borg. Þar er ekki yfir neinu að kvarta og öllum líður mjög vel."

„Ég er búnn að tala við menn í liðinu og kynna mér þetta vel. Það líður öllum svakalega vel þarna. Sem dæmi um það eru allir útlendingar sem þarna lengi hjá félaginu. Það vill enginn fara. Þeir fara ekki nema þeir fái ekki framlengingu á samningi. Allir sem ég hef talað við um félagið og borgina gefa þessu topp meðmæli."


Ætla aftur í Meistaradeildina
Qarabag hefur komist á kortið í Evrópukeppnum undanfarin ár og ætlar sér áfram stóra hluti þar.

„Þetta er lið sem var í Meistaradeildinni í fyrra og slógu út FC Kaupmannahöfn. Þeir eru með metnað um að spila aftur í Meistaradeildinni í ár. Það er eitt af þessum boxum sem maður vill tikka í á ferlinum. Ég taldi þetta vera minn besta möguleika á að spila í Meistaradeildinni og ég ákvað að elta þann draum."

Til að ná sæti í riðlakeppninni þarf Qarabag að fara í gegnum fjórar umferðir í forkeppninni. Fyrsta verkefnið er gegn Olimpija Lubljana frá Slóveníu.

„Þetta er löng leið og margir leikir en þetta tókst í fyrra og það hlýtur að gefa aukna trú til að reyna að halda áfram á þessari vegferð. Þegar þú kemst einu sinni í riðlakeppnina þá auðveldar það þér að komast aftur. Liðið var búið að vera í riðlakeppninni Evrópudeildinni í 3-4 ár þar á undan og ég tel mjög góður líkurnar að það verði önnur hvor riðlakeppnin í vetur."

Missir af fyrsta leik
Hannes mun hitta lið Qarabag í Slóveníu í næstu viku fyrir fyrri leikinn gegn Lubljana í Meistaradeildinni. Hannes er meiddur en hann vonast til að þreyta frumraun sína með Qarabag í síðari leiknum gegn Lubljana.

„Ég meiddist á heimsmeistaramótinu og er ennþá að jafna mig eftir það. Ég tognaði í nára vinstra megin. Þetta kom upp tveimur dögum fyrir Króatíu leikinn og versnaði mikið í leiknum," sagði hinn 34 ára gamli Hannes. „Ég get ekki spilað fyrsta leikinn með Qarabag en ég vonast til að geta spilað seinni leikinn eftir tvær vikur," sagði Hannes að lokum.


Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner