Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   sun 03. maí 2020 13:00
Ívan Guðjón Baldursson
Foster rifjaði upp þegar Ferguson hrakti hann frá Man Utd
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Enski markvörðurinn Ben Foster rifjaði upp upphaf ferilsins í skemmtilegum spjallvarpsþætti Peter Crouch. Í dag er hinn 37 ára gamli Foster lykilmaður í fallbaráttuliði Watford.

Foster var keyptur frá Stoke til Manchester United árið 2005, þegar hann var 22 ára gamall. Fyrstu tvö tímabilin var hann lánaður til Watford en svo ákvað Sir Alex Ferguson að gera hann að varamarkverði Edwin van der Sar.

Tímabilið 2009-10 meiddist Van der Sar og fékk Foster þá tækifæri sem aðalmarkvörður Rauðu djöflanna.

„Ég var varamarkvörður og byrjaði vel þegar ég komst í liðið. Svo átti ég nokkra slaka leiki. Sá versti var nágrannaslagurinn gegn City, sem við unnum 4-3 þökk sé sigurmarki frá Michael Owen á síðustu mínútu leiksins," sagði Foster í spjallvarpsþættinum.

„Ég átti hörmulegan leik og ég man eftir ræðunni að leikslokum þegar Sir Alex gjörsamlega hraunaði yfir mig. Við vorum í miklu stuði eftir að hafa unnið leikinn undir lokin en Ferguson þaggaði niður í öllum til að drulla yfir mig. Hann sagði 'Ef þú spilar svona aftur þá verður það þinn síðasti leikur hér'. Ég hugsaði bara með mér 'Vá, ég þurfti þetta ekki'.

„Hann tók mig sem betur fer ekki úr liðinu og ég átti nokkra góða leiki en svo gerði ég slæm mistök á heimavelli gegn Sunderland. Kenwyne Jones var of sterkur, hann vann mig í loftinu og skoraði með skalla. Mér leið hörmulega en aftur björguðum við okkur á síðustu mínútu, þegar Patrice Evra skoraði jöfnunarmarkið. Ég þakkaði guði fyrir markið en nei, það nægði ekki.

„Í klefanum eftir leik tók Ferguson góðar tvær eða þrjár mínútur til að hrauna yfir mig og sagði að ég ætti enga framtíð fyrir mér nema með varaliðinu. Allir stóru strákarnir voru í klefanum að hlusta og ég æfði með varaliðinu út tímabilið."

Athugasemdir
banner