Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
banner
   fim 04. júlí 2019 08:06
Magnús Már Einarsson
Frank Lampard tekinn við Chelsea (Staðfest)
Mynd: Getty Images
Frank Lampard hefur verið ráðinn knattspyrnustjóri Chelsea en þetta staðfesti félagið í dag.

Lampard skrifaði undir þriggja ára samning við Chelsea en hann tekur við af Maurizio Sarri sem hætti á dögunum eftir eitt tímabil á Stamford Bridge og fór til Juventus.

Hinn 41 árs gamli Lampard er fyrrum leikmaður Chelsea og goðsögn hjá félaginu. Hann spilaði 648 leiki og vann ellefu stóra titla á þrettán árum sem leikmaður Chelsea.

Lampard þreytti frumraun sína sem stjóri með Derby County á síðasta tímabili en liðið fór í umspil um sæti í ensku úrvalsdeildinni þar sem það tapaði gegn Aston Villa.

Lampard getur lítið breytt leikmannahópi Chelsea þar sem félagið er í félagaskiptabanni í næstu tveimur félagaskiptagluggum.

Það hefur legið í loftinu að Lampard myndi taka við Chelsea og samningaviðræðum lauk klukkan 01:30 í nótt eftir sex klukkutíma fund.

„Ég er ótrúlega stoltur að snúa aftur til Chelsea sem aðalþjálfari. Allir vita ást mína á þessu félagi og söguna sem við eigum saman," sagði Lampard eftir undirskrift.

„Öll einbeiting mín núna er á vinnunni sem er framundan við að undirbúa komandi tímabil. Ég er hér til að leggja hart að mér og ná frekari velgengni hjá félaginu. Ég get ekki beðið eftir að byrja."


Athugasemdir
banner
banner