Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
banner
   lau 06. júlí 2019 11:06
Ívan Guðjón Baldursson
Marquinhos dekkaði Messi með niðurgang
Marquinhos er 25 ára og leikur fyrir Frakklandsmeistara PSG.
Marquinhos er 25 ára og leikur fyrir Frakklandsmeistara PSG.
Mynd: Getty Images
Brasilía lagði Argentínu að velli í undanúrslitum Copa America í Brasilíu. Gestirnir frá Argentínu áttu góðan leik og sköpuðu mikið af færum en komu knettinum ekki í netið.

Marquinhos, varnarmaður PSG, var í byrjunarliði Brasilíu og fékk það hlutverk að dekka Lionel Messi. Það er erfitt að dekka Messi á eðlilegum degi en Marquinhos gerði það þrátt fyrir að vera fárveikur með niðurgang.

„Ég fékk vírus á leikdag og varði öllum deginum á klósettinu á hótelinu með niðurgang og ælu. Ég náði mér fyrir undanúrslitaleikinn en þegar tók að líða á leikinn fann ég að það varð erfiðara og erfiðara að halda þessu inni," sagði Marquinhos.

„Þetta var ekki auðvelt, nei. Messi og argentínska liðið áttu góðan leik og sköpuðu mikil vandræði fyrir okkur. Leikurinn var erfiður en við vörðumst vel. Alisson stoppaði svo alla bolta sem vörnin stöðvaði ekki."

Marquinhos var skipt af velli í síðari hálfleik vegna veikindanna og kom hinn reynslumikli Miranda inn til að klára leikinn. Marquinhos kíkti til læknis og ætti að vera klár fyrir úrslitaleikinn gegn Perú annað kvöld.

„Ég þurfti að láta skipta mér útaf og eftir það leið mér enn verr. Ég fékk hita og þurfti að láta sprauta mig með mótefni til að vera klár fyrir úrslitaleikinn."
Athugasemdir
banner
banner