Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   þri 06. nóvember 2018 23:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Pennant skoraði þrennu eftir að hafa djammað alla nóttina
Liverpool var eitt þeirra liða sem Pennant spilaði með á ferlinum.
Liverpool var eitt þeirra liða sem Pennant spilaði með á ferlinum.
Mynd: Getty Images
Jermaine Pennant, kantmaðurinn umdeildi, fór ungur að árum til Arsenal. Hann lék sinn fyrsta aðalliðsleik árið 1999 í deildabikarnum og fyrsta deildarleik sinn árið 2002. Fyrsti byrjunarliðsleikur hans í deildinni kom í lok tímabilsins 2002/03 en það kom honum mjög á óvart að hann skyldi vera í byrjunarliðinu.

Pennant bjóst engan veginn við því að vera í byrjunarliðinu. Hann var svo öruggur á því að hann ákvað að skella sér út á lífið og var á djamminu til klukkan sex um morguninn á leikdegi.

„Ég hafði farið út um nóttina og skemmti mér vel. Ég bjóst ekki við því að ég væri að fara að spila, hvað þá að byrja leikinn. Ég hafði aldrei byrjað fyrir Arsenal og bjóst ekki við því að það myndi breytast," sagði Pennant við FourFourTwo.

„Freddie Ljungberg, Robert Pires og Ray Parlour voru allir í hópnum en samt byrjaði ég."

„Ég var viss um að ég myndi byrja á bekknum og hugsaði að það yrði gaman að fara í partý. Ég kom heim klukkan 6 um morguninn. Ég trúði ekki mínum eigin augum þegar ég sá að ég var í byrjunarliðinu."

„Ég var þunnur þegar ég var að spila. Ég gerði allt sem ég gat til þess að vera sjálfur mér ekki til skammar," sagði Pennant en hann gerði sér lítið fyrir og skoraði þrennu í 6-1 sigri.

„Það var erfitt að trúa því þegar ég skoraði, það var mikill léttir. Ég hugsaði, ‘allt í lagi. Þú mátt taka mig út af núna Arsene!’. Ég fann fyrir því þegar Vodka-ð hristist um í maganum. Þú fannst það líka á andardrættinum mínum."

„Ég gerði vel að skora þrennu. Það sýnir að ég hafði hæfileika en það hjálpaði líka að hafa Patrick Vieira og Thierry Henry í liðinu. Þetta var fyrsti leikurinn af 49 taplausum sem fylgdu í kjölfarið."

Pennant yfirgaf Arsenal 2005 og spilaði með fullt af liðum eftir það. Hann náði aldrei að standast væntingar og spilaði lífið utan vallar þar klárlega inn í. Síðasta lið Pennant var Billericay Town í ensku utandeildinni.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner