Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
banner
   fös 08. mars 2024 12:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Freyr: Held að hann muni ekki spila leik fyrir Anderlecht
Mads Kikkenborg.
Mads Kikkenborg.
Mynd: Anderlecht
Danski markvörðurinn Mads Kikkenborg yfirgaf Lyngby á dögunum og samdi við Anderlecht í Belgíu.

Kikkenborg hafði átt mjög gott tímabil með Lyngby og var meðal annars undir smásjá félaga í ensku úrvalsdeildinni áður en hann samdi við Anderlecht.

„Hann minnir mig rosalega á Hannes Halldórsson," sagði Freyr Alexandersson, fyrrum þjálfari Lyngby, í samtali við Fótbolta.net fyrir nokkru síðan. Hann var þar að tala um Kikkenborg.

Freyr hefur núna tjáð sig við belgíska fjölmiðla um félagaskipti Kikkenborg til Anderlecht en hann býst ekki við því að markvörðurinn muni spila mikið fyrir belgíska félagið.

„Ég held að hann muni aldrei spila leik fyrir Anderlecht," segir Freyr um Kikkenborg við Het Nieuwsblad og byggir hann þá skoðun á þeim ákvörðunum sem eru teknar hjá Anderlecht.

Kikkenborg er 24 ára gamall en hann er að berjast við Kasper Schmeichel um stöðu í markinu hjá Anderlecht. Hann er í raun þriðji markvörður á eftir Colin Coosemans.

En Freyr hefur mikla trú á Kikkenborg þó hann búist ekki við því að hann spili mikið í Anderlecht. „Það kæmi mér ekki á óvart ef hann verður í danska landsliðinu eftir þrjú ár. Þið megið skrifa það niður. Hann er með hugarfar sigurvegarans og er ekki hræddur við neitt."

Kikkenborg er með samning við Anderlecht til 2028 en verður ekki það lengi hjá félaginu ef spá Freys rætist. Það er spurning hvort íslenski þjálfarinn muni reyna að fá sinn fyrrum lærisvein yfir í Kortrijk.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner