Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   sun 10. mars 2024 06:00
Ívan Guðjón Baldursson
MLS: Dagur Dan í tapliði - Jafnt hjá Nökkva Þey
Mynd: Getty Images
Mynd: St. Louis City
Dagur Dan Þórhallsson var í byrjunarliði Orlando City sem tók á móti Minnesota United í þriðju umferð bandaríska MLS deildartímabilsins.

Dagur Dan byrjaði í hægri bakverði og spilaði fyrstu 55 mínútur leiksins áður en honum var skipt útaf þegar Orlando var 1-2 undir.

Orlando tók forystuna snemma leiks með marki frá Duncan McGuire en finnski markarefurinn Teemu Pukki skoraði tvennu til að snúa stöðunni við fyrir leikhlé.

Orlando var sterkari aðilinn í síðari hálfleik og verðskuldaði að skora jöfnunarmark þegar McGuire var aftur á ferðinni á 84. mínútu.

Staðan hélst jöfn, 2-2, allt þar til seint í uppbótartímanum þegar Bongokuhle Hlongwane skoraði dramatískt sigurmark eftir að hafa komið inn af bekknum í sínum fyrsta leik eftir endurkomu úr meiðslum.

Orlando er aðeins komið með eitt stig eftir þrjár fyrstu umferðir tímabilsins. Minnesota er með sjö stig.

Nökkvi Þeyr Þórisson kom þá inn af bekknum í 2-2 jafntefli St. Louis City á útivelli gegn Austin FC.

Staðan var 2-1 fyrir Austin þegar Nökkva var skipt inn í sóknarlínuna á 87. mínútu og sex mínútum síðar leit jöfnunarmarkið dagsins ljós. Brasilíumaðurinn Celio Pompeu skoraði það eftir undirbúning frá Tomas Totland á 93. mínútu.

St. Louis er með fimm stig eftir þrjár fyrstu umferðir tímabilsins. Liðið átti frábært deildartímabil í MLS í fyrra en datt svo úr úrslitakeppninni í fyrsta leik.

Orlando City 2 - 3 Minnesota United
1-0 Duncan McGuire ('1)
1-1 Teemu Pukki ('4)
1-2 Teemu Pukki ('38)
2-2 Duncan McGuire ('84)
2-3 Bongokuhle Hlongwane ('96)

Austin FC 2 - 2 St. Louis City
1-0 Matt Hedges ('14)
1-1 Eduard Lowen ('49, víti)
2-1 Julio Cascante ('51)
2-2 Celio Pompeu ('93)
Athugasemdir
banner
banner
banner