Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   mán 10. september 2018 11:06
Elvar Geir Magnússon
Hannes: Reyndum að átta okkur á því hvað gerðist
Icelandair
Eftir 6-0 tapið gegn Sviss.
Eftir 6-0 tapið gegn Sviss.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hannes Þór Halldórsson landsliðsmarkvörður var spurður að því á fréttamannafundi í dag hvernig leikmannahópurinn hefði brugðist við og hvernig andinn í hópnum hefur verið eftir 6-0 tapið gegn Sviss.

„Menn voru í nokkrum hópum eftir leik að ræða saman og reyna að átta sig á því hvað gerðist. Þetta er óvenjulegt. Við höfum ekki lent í neinu sambærilegu áður með þessu landsliði. Við reyndum að greina þetta, saman og í sitthvoru lagi. Líka í flugvélinni í gær á leiðinni heim," sagði Hannes.

„Við megum ekki dvelja of lengi við þetta og sökkva okkur á bólakaf í eitthvað volæði. Við erum að reyna að finna svörin og vonandi eru þau komin."

Af hverju fór þetta svona?

„Það eru nokkrir samverkandi þættir. Okkur vantar fullt af leikmönnum en það er samt engin afsökun. Sviss spilaði frábærlega. Ég ætla ekki að afsaka þetta of mikið, við töpuðum 6-0 og það er óafaakanlegt. Það er eitt og annað sem gerði það að verum að þetta spilaðist svona. Við höfum rætt málin og erum farnir að horfa fram veginn. Vonandi skilar það sér í betri frammistöðu á morgun," sagði Hannes en annað kvöld mætir Íslandi sterku liði Belgíu á Laugardalsvelli.

„Við fáum ekkert stærra verkefni en þetta. Þetta er eitt besta lið í heimi á okkar heimavöll þar sem við fáum frábæran stuðning og höfum náð góðum úrslitum. Það er frábært að fá leik strax eftir þetta til að rífa okkur upp. Núna biðjum við um stuðning. Það er mikilvægt að rísa upp, skilja þennan leik í baksýnisspeglinum og vonandi náum við góðum leik á morgun og eigum gott kvöld á Laugardalsvelli."

„Það er alltaf sami undirbúningur. Þú reynir að vera eins klár og hægt er og til í allt. Það eru margir gæðaleikmenn í belgíska liðinu og við verðum að vera tilbúnir í allt. Við höfum mætt góðum leikmönnum áður en við vitum að við getum náð úrslitum gegn góðum leikmönnum. Við þurfum að vera vel undirbúnir. Við verðum klárir á morgun," sagði Hannes.
Athugasemdir
banner
banner