Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   þri 17. mars 2020 20:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Fernandes um Ronaldo: Svona orð skipta máli
Mynd: Getty Images
„Við lítum á hann sem átrúnaðargoð, hann hefur alltaf verið mitt átrúnaðargoð," segir Bruno Fernandes, miðjumaður Manchester United, um Cristiano Ronaldo.

Hinn 25 ára gamli Fernandes fór sömu leið og Ronaldo, frá Sporting Lissabon til Manchester United. Hann hefur farið mjög vel af stað með Man Utd frá því hann gekk í raðir félagsins í janúar.

Ronaldo, sem er 35 ára, er einn besti fótboltamaður allra tíma. Hann lék með Manchester United frá 2003 til 2009. Hann fór svo til Real Madrid þar sem hann vann Meistaradeildina fjórum sinnum, og er hann núna hjá Juventus á Ítalíu.

Fernandes og Ronaldo leika saman í landsliði Portúgal og segist Fernandes hafa fengið góðar móttökur frá átrúnaðargoði sínu þegar hann mætti í landsliðið.

Í viðtali við Cronache Di Spogliatoio sagði Fernandes: „Hann tók mjög vel á móti mér í landsliðinu. Ég lít á hann sem fyrirmynd, hann er einn af mínum uppáhalds leikmönnum."

„Þegar ég var valinn í portúgalska landsliðið þá kom hann til mín og sagði: 'Þú ert að standa þig frábærlega með Sporting, ég kann vel við það. Svona orð skipta máli."

Ronaldo og Fernandes áttu að leika saman með Portúgal á EM í sumar, en því móti hefur verið frestað til næsta árs út af kórónuveirunni. Portúgalar eiga titil að verja.
Athugasemdir
banner
banner