Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   mið 20. mars 2019 12:02
Arnar Daði Arnarsson
Yfirlýsing frá Leikni: KSÍ lagði blessun sína yfir fordóma
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Þórarinn Ingi Valdimarsson.
Þórarinn Ingi Valdimarsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hafrún Kristjánsdóttir.
Hafrún Kristjánsdóttir.
Mynd: Fótbolti.net - Magnús Már Einarsson
Þórarinn Ingi Valdimarsson fékk rautt spjald fyrir fórdómafull ummæli í garð Ingólfs Sigurðssonar í leik Stjörnunnar og Leiknis R. í Lengjubikarnum um helgina.

Aganefnd KSÍ kom saman í gær og tók mál Þórarins Inga Valdimarssonar fyrir. Aganefndin ákvað að lengja ekki leikbann Þórarins Inga og fer hann því aðeins í eins leiks bann.

„Fordómar eru sérstakt fyrirbrigði og í raun andstæða gagnrýninnar hugsunar. Fordómar í garð annarra, hvort sem það er vegna kynþáttar, þjóðernis, stéttar, andlegra veikinda, trúarbragða eða hvaða nafni sem það nefnist, munu aldrei líðast innan knattspyrnufélagsins Leiknis," segir í yfirlýsingu Leiknis, félagsins sem Ingólfur leikur fyrir.

„Margir af okkar iðkendum hafa því miður þurft að þola fordóma vegna þessa í gegnum tíðina, sem er í raun ótrúlegt. Við leggjum aldrei blessun okkar yfir slíka háttsemi, þrátt fyrir að knattspyrnusamband Íslands hafi gert það með ákvörðun sinni á fundi aganefndar. Það er algjörlega óskiljanlegt að knattspyrnusambandið líti framhjá 16. grein reglugerðar KSÍ um aga- og úrskurðarmál í úrskurði sínum og samþykki þar með fordóma innan vallarinns. Fordómum verður ekki útrýmt ef skilaboðin eru þessi."

„Við vonum að önnur knattspyrnufélög innan hreyfingarinnar taki ekki ákvörðun nefndarinnar til fyrirmyndar og haldi áfram að berjast fyrir fordómalausri knattspyrnu."

Hér má lesa yfirlýsinguna í heild sinni

Hafrún: Það á að taka á fordómum með ströngum hætti
Hafrún Kristjánsdóttir sálfræðingur og dósent í HR segir að bæði knattspyrnuhreyfingin og öll íþróttahreyfingin þurfi að taka harðar á fordómum gegn geðsjúkdómum eins og öðrum fordómum.

„Í fyrsta lagi er gott hjá Þórarni Inga að biðjast afsökunar. Hann segir að þessi ummæli eigi ekki heima á knattspyrnuvellinum. Miðað við það sem maður hefurt heyrt hvað hann sagði þá eiga þessi ummæli hvergi heima, ekki bara á knattspyrnuvellinum," sagði Hafrún í samtali við Fótbolta.net og bætir við að svona atvik gæti haft áhrif á iðkendur sem vilja ekki leita sér hjálpar.

„Akkúrat svona ummæli geta orðið til þess að drengir og stúlkur sem eru í íþróttum geta verið tregari til að leita sér aðstoðar eða tala um sín vandamál og það er ekki gott."

„Fótboltahreyfingin útum allan heim hefur verið sérstaklega dugleg að berjast gegn kynþáttarfordómum og hefur svosem líka verið að berjast gegn fordómum gagnvart andlegum veikindum en ég velti fyrir mér á hvaða hátt er þetta ólíkt því ef hann hefði verið með kynþáttarfordóma eða fordóma gagnvart trúarbrögðum. Þetta eru fordómar og það á að taka á þeim öllum eins, með ströngum hætti."

„Mér finnst að það eigi að taka hart á öllum fordómum og það þarf að gera það almennilega og það á ekki að skipta máli hvort það sé fordómar gegn geðsjúkdómum, litarhátti eða trúabrögðum. Það þurfa allir í íþróttahreyfingunni að standa upp gegn þessu," sagði Hafrún og bætir við að það séu vandamál að íþróttamenn eru ólíklegri til að leita sér aðstoðar og tala um sín vandamál.

„Það er akkúrat útaf svona hegðun. Í þessu tilviki er Ingólfur að fá það í andlitið á mjög grófan hátt að hafa stigið fram og talað um sín andleg veikindi og það er alls ekki gott. Bæði fyrir hann og alla hina sem þora ekki að leita sér hjálpar," sagði Hafrún og bætir við.

„Það er kannski ráð að auka fræðslu um þessi mál til íþróttamanna almennt, það er fáfræðin sem býr til fordóma," sagði Hafrún að lokum.

Hér að neðan má sjá tíst frá Hafrúnu frá því í gær um þetta mál.




Sjá einnig:
Þórarinn Ingi fékk rautt fyrir fordómafull ummæli
Þórarinn Ingi biðst afsökunar
Aganefnd kemur saman vegna máls Þórarins Inga 

 

 

Athugasemdir
banner
banner