Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   mán 11. febrúar 2019 07:00
Ívan Guðjón Baldursson
Hazard: Ég get ekki skorað 40 mörk á tímabili
Mynd: Getty Images
Eden Hazard segir að Maurizio Sarri og undanfarar hans hjá Chelsea búist við of miklu af sér.

Þeir vilja sjá hann skora urmul marka á hverju tímabili en það hentar kantmanninum ekki, sem er iðinn við að leggja upp auk þess að skora.

Sarri notaði Hazard sem fremsta mann um tíma en það virtist ekki auka markaskorun Belgans knáa sem er talinn vera einn af bestu leikmönnum heims. Hann er kominn með 12 mörk og 10 stoðsendingar í 24 úrvalsdeildarleikjum á tímabilinu.

„Ég er alls ekki eigingjarn fyrir framan markið og það getur verið veikleiki ef maður vill vera besti leikmaður heims. Stjórar eins og Mourinho, Conte og núna Sarri vilja að ég skori 40 til 50 mörk á tímabili. Get ég gert það? Ég er ekki viss," sagði Hazard við The Times.

„Þeir halda kannski að ég geti það en ég þekki sjálfan mig og held að ég geti það ekki. Ég ætla samt að reyna. Mér finnst gaman að vera 'stjarnan' í liðinu en ég kýs samt að senda boltann ef það er einhver í betra færi. Þetta snýst ekki bara um mig, þetta snýst um alla. Mitt markmið er að hjálpa liðinu að vinna titla."

Hazard hefur unnið úrvalsdeildina tvisvar sinnum á sex og hálfu ári hjá Chelsea en hefur einnig unnið FA bikarinn, deildabikarinn og Evrópudeildina.

Hann vill ólmur vinna Meistaradeildina meðan hann er enn á besta aldri og eru miklar líkur á að hann yfirgefi Chelsea næsta sumar.

Þær líkur jukust í gær þegar Chelsea tapaði 6-0 fyrir Manchester City.
Athugasemdir
banner
banner
banner