PSV Eindhoven ætlar að selja Johan Bakayoko í sumar þar sem félagið hefur þegar fengið fimm tilboð í leikmanninn.
PSV er meðal bestu liða í Hollandi um þessar mundir eftir að hafa sigrað efstu deild þar í landi tvö ár í röð, en 22 ára Bakayoko er ekki með nema eitt ár eftir af samningi.
Bakayoko er metinn á 30 milljónir evra á vefsíðu transfermarkt en Fabrizio Romano segir að PSV sé tilbúið til að samþykkja 20 milljónir fyrir kantmanninn.
Bakayoko kom að 15 mörkum í 47 leikjum með PSV á síðustu leiktíð, en tímabilið þar á undan kom hann að 28 mörkum í 48 leikjum.
Hann þykir gríðarlega hæfileikaríkur og ætlar ekki að skrifa undir nýjan samning við PSV. Romano segir RB Leipzig, Bayer Leverkusen, Everton, Nottingham Forest og Bournemouth öll vera í sambandi við Hollandsmeistarana.
Newcastle United, AS Mónakó og Borussia Dortmund eru einnig sögð vera áhugasöm og hafa einhverjir fjölmiðlar sagt að Newcastle leiði kapphlaupið um þennan kantmann. Óljóst er hvort félagið þurfi á honum að halda eftir kaup á Anthony Elanga í gær.
Bakayoko á 18 A-landsleiki að baki fyrir Belgíu eftir að hafa verið mikilvægur hlekkur upp yngri landsliðin.
Athugasemdir