Fenerbahce og AC Milan eru bæði búin að ná samkomulagi við belgíska félagið Gent um kaup á Archie Brown.
Brown er 23 ára vinstri bakvörður sem vakti mikla athygli á sér með frábærri frammistöðu á síðustu leiktíð. Hann er lykilmaður í liði Gent og er félagið reiðubúið til að selja hann fyrir 8 milljónir evra þó að leikmaðurinn eigi ennþá tvö ár eftir af samningi.
Tyrkneska stórveldið Fenerbahce er í stórsókn í sumar og sendi einkaþotu til að sækja Brown til Belgíu í gær. Þotan var búin að sitja í nokkra klukkutíma á flugvelli í Brussel þegar AC Milan sendi einnig þotu af stað. Það eru því tvær einkaþotur sem sitja í Brussel þessa stundina að bíða eftir að leikmaðurinn taki ákvörðun um hvort félagið hann ætlar að spila fyrir.
Fabrizio Romano greinir frá þessu og segir að leikmaðurinn ætli að taka lokaákvörðun varðandi framtíð sína í dag. Hann hefur verið í samningaviðræðum við bæði félög síðustu daga.
Brown er enskur og ólst upp hjá Derby County áður en hann hélt á vit ævintýranna á meginlandi Evrópu. Hann á tvo landsleiki að baki fyrir U20 lið Englands.
Andri Lucas Guðjohnsen og félagar í Gent munu því leika með nýjum vinstri bakverði á næstu leiktíð.
Athugasemdir