Man Utd ætlar að selja Antony - Zirkzee til Arsenal?
   sun 03. mars 2024 20:47
Brynjar Ingi Erluson
Baráttusigur hjá lærisveinum Freysa - Sex töp í röð hjá Eupen
Freysi stýrði sínum mönnum til sigurs
Freysi stýrði sínum mönnum til sigurs
Mynd: Getty Images
Gummi Tóta náði í gott stig gegn Panathinaikos
Gummi Tóta náði í gott stig gegn Panathinaikos
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Það gengur ekkert hjá Íslendingunum í Eupen
Það gengur ekkert hjá Íslendingunum í Eupen
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Freyr Alexandersson og lærisveinar hans í belgíska liðinu Kortrijk unnu magnaðan 3-2 baráttusigur á Molenbeek í úrvalsdeildinni í dag.

Í byrjun árs hætti Freyr með Lyngby og stökk á tækifærið að þjálfa botnlið Kortrijk.

Hann vissi vel að þarna beið hans erfitt verkefni en hann náði góðum árangri í fyrstu fjórum leikjum sínum þar sem liðið vann tvo og gerði tvö jafntefli.

Kortrijk tapaði næstu þremur leikjum í röð áður en það tókst að vinna dýrmætan 3-2 sigur á Molenbeek. Alsírski leikmaðurinn Abdelhak Kadri var besti maður Kortrijk, en hann gerði tvö mörk og lagði upp eitt í sigrinum.

Liðið er áfram í botnsæti deildarinnar en nú búið að ná Íslendingaliði Eupen að stigum, sem tapaði sínum sjötta deildarleik í röð er það laut í lægra haldi fyrir Anderlecht í kvöld, 1-0.

Guðlaugur Victor Pálsson lék allan leikinn í vörn Eupen en Alfreð Finnbogason kom inn af bekknum í síðari hálfleik. Liðið er nú með 21 stig eins og Kortrijk, sjö stigum frá öruggu sæti.

Stefán Ingi Sigurðarson kom inn af bekknum í síðari hálfleik í 3-0 tapi Patro Eisden gegn Seraing í belgísku B-deildinni. Patro Eisden er í 5. sæti deildarinnar með 40 stig.

Mikael Neville Anderson lék allan leikinn fyrir AGF sem gerði 1-1 jafntefli við OB í dönsku úrvalsdeildinni. Þá töpuðu Íslendingarnir í Lyngby fyrir Hvidovre, 4-2.

Andri Lucas Guðjohnsen og Kolbeinn Birgir Finnsson voru báðir í byrjunarliði Lyngby en Sævar Atli Magnússon kom inn fyrir Andra í síðari hálfleik. AGF er í 5. sæti dönsku deildarinnar með 30 stig en Lyngby í 10. sæti með 20 stig.

Kristian Nökkvi Hlynsson byrjaði í 2-0 sigri Ajax á Utrecht í hollensku úrvalsdeildinni. Ajax hafði ekki unnið deildarleik síðan 27. janúar og var því sigurinn kærkominn.

Ajax er í 5. sæti með 39 stig.

Nokkrir Íslendingar eru þá úr leik í sænska bikarnum. Andri Fannar Baldursson var í liði Elfsborg sem gerði 2-2 jafntefli við Degerfors, en Elfsborg þurfti sigur til að komast í 8-liða úrslit. Liðið hafnaði í öðru sæti riðilsins og er því úr leik.

Þorri Mar Þórisson og félagar í Öster eru einnig úr leik þrátt fyrir 5-0 sigur á Luleå.

Valgeir Valgeirsson spilaði í 2-1 sigri Örebro á Gefle. Örebro hafnaði í öðru sæti síns riðils og fer því ekki áfram. Kolbeinn Þórðarson byrjaði í 3-0 tapi Gautaborgar gegn Djurgården, en þetta var hreinn úrslitaleikur um sæti í 8-liða úrslitum.

Bjarki Steinn Bjarkason byrjaði í 2-1 tapi Venezia gegn Como í ítölsku B-deildinni. Hann fór af velli í síðari hálfleik og kom þá Framarinn Mikael Egill Ellertsson inn í hans stað. Como fer upp fyrir Venezia á töflunni, en liðið e í 3. sæti með 52 stig, einu á undan Venezia.

Í grísku deildinni máttu tveir Íslendingar sætta sig við stig. Samúel Kári Friðjónsson kom inn af bekknum undir lok leiks í 1-1 jafntefli Atromitos gegn PAS Giannina á meðan Guðmundur Þórarinsson lék allan leikinn í 2-2 jafntefli OFI Crete gegn Panathinaikos. Hörður Björgvin Magnússon var ekki með Panathinaikos en hann er að jafna sig eftir krossbandsslit.

Panathinaikos er í 4. sæti með 56 stig, Atromitos í 8. sæti með 28 stig og OFI Crete í 10. sæti með 25 stig.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner