Stephen Robinson, norður-írski þjálfari skoska félagsliðsins St. Mirren, gaf kost á sér í viðtal eftir markalaust jafntefli við Val á Hlíðarenda í forkeppni Sambandsdeildarinnar í kvöld.
Bæði lið fengu mörg góð marktækifæri í opnum leik en boltinn rataði ekki í netið.
„Við þjálfararnir getum allavega verið sammála um að það hefðu átt að vera mörg mörk í þessum leik. Við erum sáttir með að vera ennþá inni í þessari viðureign gegn sterkum andstæðingum," sagði Robinson að leikslokum.
„Þetta er fimmtándi leikurinn þeirra á tímabilinu en okkar fyrsti og ég hef trú á að við munum vera betri í næsta leik. Við fengum allavega sjö dauðafæri í þessum leik og andstæðingarnir okkar fengu líka nokkur. Þetta var skemmtilegur leikur.
„Við áttum kannski að vinna þennan leik en við getum verið sáttir með okkar frammistöðu og við þurfum að nýta færin í seinni leiknum."
Athugasemdir






















