
Árni Freyr Guðnason, þjálfari ÍR, var hæstánægður með það að hafa unnið Breiðholtsslaginn í kvöld þegar ÍR vann Leikni 1-0. Liðin mættust í 14. umferð Lengjudeild karla á ÍR-vellinum.
Lestu um leikinn: ÍR 1 - 0 Leiknir R.
„Mér líður bara vel. Þetta var góður sigur og gott fyrir klúbbinn að taka Breiðholtsslaginn og hefna fyrir fyrri leikinn. En fyrst og fremst ánægður með það að hafa unnið.“
Undir lok leiksins var mikil spenna og voru færi á báða bóga. Árni hvort hann var orðinn smeykur við jöfnunarmark á þeim tímapunkti.
„Nei mér fannst við alveg vera svona nokkurn veginn með þá. Þeir voru farnir að dæla boltum í lokin og það getur allt gerst en maður hafði ekki miklar áhyggjar framan af því. Svo er þessi íþrótt óútreiknanleg og gott að við sigldum þessu yfir línuna.“
„Mér fannst við mjög góðir í fyrri hálfleik, áttum að vera fleiri mörkum yfir og fengum síðan þrjú fjögur mjög góð færi í seinni hálfleik til þess að klára leikinn áður en þeir settu aðeins á okkur.“
Þegar Breiðholtsslagur er á dagskrá þarf ekki að gera mikið til þess að gíra menn upp fyrir leikinn, að sögn Árna.
„Nei sérstaklega ekki fyrir ÍR strákana sem eru hérna og hafa verið hérna lengi. Maður þekkir þetta sjálfur, ég spilaði hérna í nokkur ár. Þannig þetta er alltaf dálítið sérstakt en það voru allir klárir og þessir ÍR-ingar drógu svolítið vagninn í því og það hjálpaði mikið í.“
ÍR hefur verið á miklu flugi að undanförnu og hafa sigrað fimm leiki af síðustu sjö.
„Já það er mjög gott. Við erum í þessu til þess að vinna. Við erum ánægðir með það að ná í þessa sigra og við þurfum bara að halda áfram. Það er ekkert komið, markmiðið okkar er að vera í þessari deild á næsta ári og það er ekkert í hendi þannig við þurfum bara að halda áfram.“
Viðtalið má sjá í heild sinni í spilaranum hér að ofan.