„Margt gott og ég held að við séum allir svolítið svekktir að vera ekki að fara með forystuna sem við unnum fyrir, sem að hefði átt að vera allavega tvö mörk og þá er bara eitt að gera. Það er bara að stíga upp og gera meira úti og taka það sem er okkar“ sagði Jökull Elísabetarson, þjálfari Stjörnunnar, eftir 2-1 sigur gegn Eistneska liðinu Paide í 2. umferð forkeppni Sambandsdeildarinnar í kvöld.
Lestu um leikinn: Stjarnan 2 - 1 Paide
Í stöðunni 2-1 var mark dæmt af Stjörnunni en enginn virtist vita hvað var verið að dæma á nema dómarinn sjálfur, um þetta atvik sagði Jökull:
„Mér fannst þetta bara glórulaust. Mér finnst þetta vera mark og þetta á að standa og ég get ekki með nokkru móti skilið að þetta fái ekki að standa. Stundum er þetta bara svona og það þýðir ekkert að væla yfir því, við förum bara og gerum þeim mun betur úti. Við erum klárir í það, tökum leik um helgina og svo förum við ofpeppaðir út og tökum það sem við teljum vera okkar.“
Markmennirnir tveir hjá Stjörnunni, Árni Snær Ólafsson og Mathias Rosenörn, hafa verið að skipta á milli sín leikjum upp á síðkastið. Rosenörn hefur spilað alla Evrópuleikina til þessa á meðan Árni Snær spilar flesta leiki í Bestu deildinni. Aðspurður hver ástæðan á bak við þetta sé segir Jökull:
„Þetta eru tveir frábærir markmenn sem hafa spilað mjög vel. Árni hefur spilað mjög vel í sumar og hann hefur svolítið liðið fyrir lélegan varnarleik hjá liðinu í nokkrum leikjum og þá lítur tölfræðin hans illa út en hann er ekki tekinn út vegna hennar. Mathias er búinn að spila vel og átti að mörgu leiti skilið að fá fleiri leiki. Þá erum við með tvö markmenn sem eiga skilið að fá fullt af leikjum og reynum að gera það eins vel og við getum.“
Viðtalið við Jökul má sjá í heild sinni í spilaranum hér fyrir ofan.






















