Man Utd hefur áhuga á Yoro - Osimhen í forgangi hjá Chelsea - Napoli, Juve og Atletico hafa áhuga á Greenwood
banner
   mið 08. ágúst 2018 09:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Heimild: Liverpool Echo 
Gylfi fær að spila á miðjunni - Ánægður með Marco Silva
Gylfi kom til Everton síðasta sumar.
Gylfi kom til Everton síðasta sumar.
Mynd: Getty Images
Marco Silva.
Marco Silva.
Mynd: Getty Images
Síðasta tímabil hjá Everton var ekki eðlilegt að mati Gylfa Þórs Sigurðssonar.

Gylfi var keyptur til Everton fyrir 45 milljónir punda síðasta sumar. Það var þá metfé og var Gylfi dýrastur í sögu félagsins, en Richarlison bætti það met í sumar, hann kostaði 50 milljónir punda.

Everton fór í gegnum þrjá stjóta á síðasta tímabili, ef David Unsworth er tekinn með, og tímabilið reyndist erfitt. Gylfi telur að komandi tímabil verði öðruvísi undir stjórn Marco Silva.

„Síðasta tímabil var öðruvísi en venjulegt ár á að vera hjá fóboltafélagi," segir Gylfi í samtali við Liverpool Echo. „Það voru margar breytingar og hver þjálfari kom með sínar eigin hugmyndir og sinn eigin leikstíl. Flestir leikmennirnir eru þó reynslumiklir og eru vanir stjóraskiptum."

„Við höfum gengið í gegnum þetta áður og þetta mun gerast aftur á ferlinum. Með breytingum þá þarftu að gera hlutina öðruvísi og spila öðruvísi, það var ekki ákjósanlegt."

Portúgalinn Marco Silva tók við Everton af Sam Allardyce eftir síðasta tímabil.

„Við erum komnir með mjög góðan stjóra og hann mun standa sig vel með okkur," segir Gylfi.

„Við erum að einbeita okkur að því að bæta okkur varnarlega. Við ætlum að vera tilbúnir í fyrsta leik í ensku úrvalsdeildinni. Við viljum byrja vel."

Everton heimsækir nýliða Wolves í fyrstu umferð ensku úrvalsdeildarinnar. Það verður erfitt verkefni fyrir Everton, Wolves er með hörkulið.

Fær að spila á miðjunni undir stjórn Silva
Everton hefur gengið illa á undirbúningstímabilinu en Gylfi hefur ekki miklar áhyggjur. Hann segir að síðustu vikur hafi mikið farið í að vinna að varnarskipulagi og að koma leikmönnum liðsins í líkamlega gott stand.

Gylfi segir að mörkin sem Everton hafi verið að fá á sig á undirbúningstímabilinu séu flest að koma eftir klaufamistök. Liðið þurfi bara að fækka þeim.

Gylfi var notaður í mörgum stöðum á síðasta tímabili og spilaði mikið út á kanti og þá var hann jafnvel að spila sem fremsti maður. Hans besta staða er á miðri miðjunni eða sem fremstur á miðju og þar mun hann spila í vetur. Hann er meira að segja kominn í treyju númer 10 hjá félaginu.

„Stjórinn vill spila mér á miðjunni, sem er flott mál," segir íslenski landsliðsmaðurinn.

„Við erum með góða kantmenn sem eru eldsnöggir og vonandi getum við nýtt okkur það vel að hafa þá á köntunum og mig á miðjunni."

„Ég naut þess reyndar líka að spila frammi, það var öðruvísi fyrir mig og eitthvað sem ég lærði af. Það var erfitt en þú gerir alltaf þitt besta fyrir liðið og spilar þar sem þér er sagt að spila," sagði Gylfi að lokum.
Athugasemdir
banner
banner