Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
banner
   lau 09. maí 2020 19:00
Ívan Guðjón Baldursson
Van Gaal fann Van der Sar í utandeildinni
Mynd: Getty Images
Edwin van der Sar, fyrrum markvörður Ajax og hollenska landsliðsins, rifjaði upp fyrstu skref ferilsins sem atvinnumaður. Hann spilaði fyrir áhugamannalið 19 ára gamall og var fenginn yfir til Ajax þökk sé Louis van Gaal.

Van der Sar spilaði fyrir Noordwijk og var þjálfari hans í sama vinahópi og Louis van Gaal, sem var þjálfari Ajax á þessum tíma. Vinahópurinn hittist einu sinni í mánuði til að spila fótbolta og barst Van der Sar til tals.

„Ég hefði ekki farið til Ajax ef ekki fyrir Louis. Þjálfarinn minn hjá Noordwijk spilaði fótbolta með honum og sagði honum að kíkja á leik til að skoða hægri kantmanninn og markvörðinn," sagði Van der Sar við Ziggo Sport.

„Hann kíkti á leik og viku síðar fékk ég bréf frá Ajax sem bauð mér að koma í prufu."

Van der Sar, sem er yfirmaður knattspyrnumála hjá Ajax í dag, spilaði í níu ár fyrir félagið áður en hann skipti yfir til Juventus, Fulham og loks Manchester United. Hann spilaði 130 leiki fyrir hollenska landsliðið og er í hópi bestu markvarða sinnar kynslóðar.

Van der Sar var fyrirliði hollenska landsliðsins frá 2004 til 2008.

Hægri kantmaðurinn heitir Leonard van Utrecht og lék fyrir nokkur lið í efstu deild hollenska boltans. Hann spilaði fyrir Padova í efstu deild á Ítalíu 1995-96 en féll með liðinu og hélt heim til Hollands ári síðar.
Athugasemdir
banner
banner
banner